Árið 1997 kom út íslensk barnaplata með Dr. Gunna og heitir hún Abbababb. Abbababb er ólík flestum öðrum barnaplötum og skemmtilegri vegna þess hve hreinskilin og hárbeitt hún er.
Dr. Gunni virðist vita nákvæmlega hvað börn vilja og platan er ekki tilgerðarleg og plebbaleg einsog flestar barnaplötur.

Platan hefst á laginu “Abbababb” sem er nokkurskonar intro og mjög fjörugt og skemmtilegt.
Svo er komið að “Prumpulaginu” sem eflaust allir muna eftir, enda var það mjög vinsælt þegar að platan kom út. Textinn við lagið er mjög fyndinn og ákveðin búkhljóð sem eru í laginu fullkomna skemmtunina. Lagið er bráðskemmtilegt en getur orðið ótrúlega þreytandi ef að maður hlustar of oft á það.
Lagið “Systa sjóræningi” er þriðja lagið og það fjallar um sjóræningjann Systu sem lendir í ógöngum útá sjó og lendir á galdraeyju þar sem að hún sér margt undarlegt.
Á eftir Systulaginu er komið að Herra Rokk og fýlustráknum sem hittast útí strætóskýli og fer þeim margt á milli. Þetta er mjög skemmtilegt lag og skemmtileg sólóin hjá gestunum sem Herra Rokk kallar til. Rúnar Júlíusson syngur fyrir Herra Rokk (auðvitað, Rúnar er nú bara Herra Rokk…)og sjálfur Jón Gnarr er fýlustrákurinn.
Lagið um Óla, hundaóla er ótrúlega fyndið lag og textinn er einn sá alhressasti sem ég hef heyrt! “Hann hundinn í ruslinu fann/ og hundurinn er miklu gáfaðari en hann” Þarf að segja meira?
“Rauða hauskúpan” er eitt af uppáhaldslögunum mínum á “Abbababb” en það er rokkað lag og fjallar um litla stráka í leynifélaginu Rauða hauskúpan. Textinn er skemmtilegur:
“Við vonum að þeir fari að fremja stórglæpi/ að brugga bjór og landa og önnur misferli”
Næst er komið að Páli Óskari sem syngur lagið um Dodda draug. Doddi lifir vægast sagt vesældarlegu lífi en lagið um hann er nú samt frekar hresst, reyndar ekki eitt af uppáhaldslögunum mínum, en flott samt.
Lag númer átta er einkar hressilegt og heitir það “Strákurinn með skeggið”. Það lag fjallar um Stebba litla sem vaknar einn morguninn með allsvakalegt skegg sem fellur fram yfir bringuna á honum. Foreldrar Stebba, svo ekki sé minnst á hann sjálfan, fá sjokk og vita varla hvað þau eiga að taka til bragðs, þangað til að pabbi Stebba fær góða hugmynd…
Lag númer níu fjallar um hann Lalla ljóta og kærustuna hans, Gilitrutt. Snilldarlag og textinn er einn sá skondnasti sem ég hef heyrt.
Hver man ekki eftir því að vera lítill og drulluhræddur við “stóru strákana”… ég man allavegana eftir því og hugsa oft glottandi til þess þegar að mér fannst strákarnir í sjötta og sjöunda bekk alveg risastórir! Lag númer tíu heitir “Stóru Strákarnir” og er með skemmtilegum trommutakti. Dr. Gunni syngur sjálfur lagið sem mér finnst fjalla um lítinn strák (strák afþví að Gunni er víst karlkyns) sem er skííthræddur við stóru strákana, sem eru “hreinræktuð alihrekkjusvín”.
Nonni og Manni heita karlar í sveit og um þá fjallar lag númer ellefu. Skemmtilegt lag með mögnuðum hljóðum. Þess má kannski til gamans geta að það er mjög hressandi að hoppa tryllingslega um þegar að maður hlustar á þetta lag (förum ekkert nánar útí það).
Ég veit ekki alveg hvað ég á að segja um lag númer tólf. Það heitir “Komdu út að leika” og er frekar svona sakleysislegt lag, mér finnst það lýsa vel sakleysi barna. Skemmtilegur instrumental kafli í þessu lagi (reyndar ekkert langur, en uppáhaldskaflinn minn þrátt fyrir það).
Það er frábært að enda góðan geisladisk á rólegu lagi en þessi diskur endar einmitt á rólegu og mjög fallegu lagi sem fjallar um litla stelpu og kisuna hennar. Textinn er frekar sorglegur og maður er við það að fara að gráta þegar allt endar svo vel að lokum. Mér finnst þvílík snilld að enda diskinn á þessum rólegu nótum, þetta er jú barnaplata og börnin eru vísast orðin þreytt eftir allt stuðið á diskinum og þá er fátt betra en að slaka aðeins á.

Jæja krakkar, þá er þetta bara búið en þið getið lesið þetta aftur og aftur og aftur og aftur og aftur og aftur og aftur og aftur og aftur og aftur… því það finnst mömmu og pabba svo skemmtilegt;)

- Júlíana með nef