Árið 1995 varð Botnleðja endanlega til eftir margar mannabreytingar og aðrar stofnaðar hljómsveitir. Sama ár vinna þeir Músíktilraunir með glæsibrag og byrja þá að leggja hönd á plóg við sína fyrstu plötu, Drullumall. Kom hún út sama ár og þess má geta að hún var tekin upp á einum sólarhring. Í kjölfarið fylgdi svo Fólk er fífl sem þessi plötugagnrýni er um árið 1996, á þeim tíma voru Botnleðjumenn farnir að bregða á leik með bresku stórhljómsveitinni Blur. Þriðja platan, Magnyl leit svo dagsins ljós árið 1998 og má þá nefna lögin “Flug 666” og “Ég drukkna hér” sem prýða þá frábæru plötu. Árið 2000 kom svo í búðir fjórði diskurinn Douglas Dakota sem hafði yfir sér nokk öðruvísi blæ á tónlistinni en þær fyrri, lögin eru rólegri og bara öðruvísi, mér eru minnistæðust lögin “Fallhlíf” og “Plan B”. Svo árið 2003 kom fimmti diskurinn út, Iceland National Park þar sem snúið er dáldið aftur til fyrri tíma með meira rokki.

Í þessari gagnrýni ætla ég að fjalla um minn uppáhalds Botnleðjudisk, Fólk er fífl þó Iceland National Park fylgi fast á eftir.

01 - Ég vil allt
Fyrsta lagið á plötunni, byrjar skemmtilega með svona barsmíðum í fjarlægð, en skiptir fljótt yfir í kröftugt rokk lag með mjög skemmtilegum köflum þar sem er talað og hrópað mikið í bakgrunninn og mætti halda að einhver af þeim köllum hafi farið á leikskóla og tekið upp umhverfishljóð. Lagið endar svo á textanum “hvernig geturðu endurtekið þig” í sífellu yfir snilldarlegt pönkað gítarspil. Þetta lag minnir mig alltaf á álfa…veit ekki afhverju…….?!?!

02 - Höfuðfætlan
Kemst alltaf í gott skap að heyra þetta lag, þetta er alveg yndislega gleðilegt lag í skemmtilegum dúr-hljómum. Gaman af því að svo virðist á köflum sem einhverskonar flanger effect sé notaður á trommusimbalana og gítarinn í laginu. Heiðar syngur mjög skemmtilega í laginu, virðist hafa dálítið hvellna rödd.

03 - Hausverkun
Ætli þetta sé ekki þekktasta lagið af disknum, grípur mann með öflugri byrjun. Skondin texti með snilldar “hjáááááááálp” viðlagi þar sem mér heyrist Halli trommari öskra sem hæst. Svo má ekki gleyma mestu snilldinni í laginu sem er djass/fönk kaflinn með gangandi bassalínu í botninum sem flýgur yfir í magnaðan gítarkafla sem minnir mig alltaf mikið á Las Vegas þar sem þeir Jóel Pálsson saxófón leikari og Veigar Margeirsson trompetleikari þeyta lúðrana með.

04 - Svuntuþeysir
Þetta lag hefur aldrei höfðað nógu vel til mín en minnir dáldið á lag sem heitir Party hard, en ég man ekki með hverjum það lag er. Þó hefur lagið að geyma grípandi hljómborðsspil sem er mitt uppáhald í laginu.

05 - Botnleðja
Var á tíma mitt uppáhald á disknum. Þetta lag er “pönk dauðans” eins og ég vil kalla það, mikil öskur og læti. Lagið er stutt og laggott með góðu stoppi í enda lagsins en byrjar aftur með tvöföldum krafti. Ég hef alltaf vellt því fyrir mér hvað Heiðar segir í viðlaginu en kemst alltaf að sömu niðurstöðu: Ooorðið sa!!……?!

06 - Pöddur
Ljúft lag….hraðar á í viðlagi við hróp frá Heiðari sem segja “Fögnum! Fögnum!”. Lagið endar svo á hörðum endaspretti þar sem hraðinn er fyrir öllu! :D Fínasta lag, hefur þó aldrei verið í uppáhaldi.

07 - Það eru allir dagar eins í sveitinni
Þetta lag er nú dáldið súrt þ.e.a.s súrealískt. Brjálað overdrive hjá bassa og gítar í byrjun gera lagið til alls líklegt og býst maður oft við að fá stóra gusu af þungarokki yfir sig en þá kemur barnalegur “lalalala” kafli í staðin. Reyndar hellist svo yfir mann í enda lagsins skelfingaröskur Heiðars yfir brjálæðislegu undirspili. Lagið endar svo með löngum gítartóni til að undirstrika rokkið. Gott dót.

08 - Étum alla
Mér finnst þetta lag endalaust dýrlegt! Byrjunin er góð, með kærileysislegum bassaleik og flottu gítarspili. Viðlagið er svo mikil snilld þegar hraðað er á og Heiðar syngur “Étum alla! Étum alla!” Einnig má heyra í Ragga bassaleikara með snilldarlegar bassakrúsídúllur inn á milli. Söngurinn er að mínu mati bestur í þessu lagi og trommurnar þéttar hjá Halla eins og reyndar alltaf. Flottur miðkafli með “offbeat” gítarsólói sem flýgur svo yfir í viðlag og endar.

09 - Gervimaðurinn Bílífi
Hljómborð er dálítið áberandi í laginu, og það er flott ásamt skemmtilegum gítarleiknum í laginu. Skemmtilegur effect á rödd Heiðars í laginu. Mér líður alltaf eins og það sé rigning þegar ég heyri lagið….allavega flott lag sem flýtur vel með.

10 - Hvernig væri nú aðeins
Ekta Botnleðjulag, allavega þegar Botnleðja er nefnd sé ég fyrir mér svona lag! Greip mig ekki við fyrstu hlustun en kom sterkt inn þegar leið á hlustunartímann, og varð mitt uppáhaldslag á disknum um tíma. Enn og aftur skondin texti sem gerir sitt gagn með kröftugu undirspilinu.

11 - Keyrðu á hausnum á þér elskan
Nærrumþví “instrumental” lag en ef maður hlustar vel heyrir maður Heiðar hvísl/öskra með. Góð hugmynd, á súru lagi, en ekki lag sem festist á “uppáhaldslistanum” hjá manni. Engu að síður skemmtilegt lag við rétt tækifæri.

12 - Réttur dagsins
Meiri súrleika takk!! Þetta finnst mér algjör snilld! Textin nærum því upptalin með setningunni “Réttur dagsins”. Flott gítarplokk á köflum og í endasprettinum kemur fyndið falskt píanó inní sem minnir mann dálítið á tilraunir Bítlanna með reverse-tæknina, eða að spila hljóð aftur á bak og láta inn í lögin. Dæmi : Tomorrow never knows, I am the Walrus ofl.

Ég mæli hiklaust með þessum disk, hann er fjölbreyttur, frumlegur og gott hljóðfæraspil í gangi. Einnig mæli ég með hinum Botnleðjudiskunum sem sömuleiðis eiga mörg djásn að geima.