Frétt tekin af Monitor :

Við hérna í ritstjórn Monitors höfum grátið okkur í svefn síðustu nætur við þær hörmulegu fréttir að piltarnir í Jakobínarínu hafi ákveðið að leggja árar í bát. Hljómsveitin ætlar að starfa út næstu tvo mánuði til þess að standa við þær bókanir er lágu fyrir en svo munu leiðir skilja. Sveitin er þó ekki að tvístrast í einingar sínar heldur ætla fjórir liðsmenn sveitarinnar að halda áfram undir öðru nafni. Helsta ástæða samstarfsslitanna er leiði yfir þeirri tónlistarstefnu er sveitin hafði valið sér að leika og leiði Gunnars Ragnarsonar söngvara á tónlistarbransanum. Gunnar hefur ákveðið að hvíla sig á rokkinu í bili og setjast aftur á skólabekk. Hann hefur þó ekki sagt skilið við tónlist yfir höfuð og gæti hugsað sér að gera tónlist á íslensku í framtíðinni eða jafnvel semja texta fyrir aðra.
Hallberg gítarleikari Jakobínarínu mun taka að sér sönghlutverkið í hinni nýju sveit sem ætlar sér að leika öðruvísi tónlistartegund en piltarnir hafa verið þekktir fyrir að framleiða til þessa. Vonandi náum við svo að setja upp eina tónleika með sveitinni áður en hún skýtur sig í höfuðið.

Gaman verður svo að fylgjast með hvernig áframhaldið verður..