Mennirnir sem segja satt í heimi sem lýgur
I Adapt – Chainlike Burden stjörnugjöf: *****

ÞAÐ skortir sjaldnast framboðið á rokksveitum en oft eru margar kallaðar og fáar útvaldar. Eins er þetta með íslenskar rokkhljómsveitir: Ávallt nægjanlegt framboð en mun færri sem ná að smeygja rafdrifnum gítarriffunum inn í huga manns og hjarta.


ÞAÐ skortir sjaldnast framboðið á rokksveitum en oft eru margar kallaðar og fáar útvaldar. Eins er þetta með íslenskar rokkhljómsveitir: Ávallt nægjanlegt framboð en mun færri sem ná að smeygja rafdrifnum gítarriffunum inn í huga manns og hjarta. Árið 2006 gerði rokkgrúppan Reykjavík! sína fyrstu plötu sem var af mörgum talin rokkplata þess árs. Í ár held ég að harðkjarnasveitin I Adapt eigi skilið þennan eftirsóknarverða titil.

Ólíkt Reykjavík! eru I Adapt síður en svo nýgræðingar í rokkinu. Þeirra fyrsta plata var tónleikaplatan ,,The Famous Three“ og kom hún út skömmu eftir að þeir byrjuðu árið 2001. I Adapt gerði svo plötu á ári næstu þrjú ár: ,,Why not make today legendary” árið 2002, ,,Sparks Turn to Flames“ árið 2003 og ,,No Pasaran” árið 2004. Nýútkomna platan, ,,Chainlike Burden“ kemur svo út á sama tíma á Íslandi og í Bandaríkjunum. Öllum þessum útgáfum hefur nefnilega fylgt heilmikil spilamennska um Evrópu og í Bandaríkjunum, en I Adapt er með eindæmum hógvær sveit, og ekkert að flíka verkum sínum og gjörðum að óþörfu.

Sveitin hefur líka verið ákaflega dugleg við að spila hérlendis og er með allra hressilegustu tónleikahljómsveitum Íslands. Þeir segjast sjálfir spila hverja tónleika eins og það séu þeirra síðustu og ef þeir nái ekki að hugsa tónleika sína á þennan hátt geti þeir bara alveg eins sleppt þeim. Þetta viðhorf og þessi gífurlega einbeiting og kraftur finnst mér hingað til ekki hafa skilað sér alla leið á geisladiska sveitarinnar, en á ,,Chainlike Burden” kveður við nýjan hljóm.

Greinilegt er að I Adapt hefur fundið leiðina til að fanga tónleikaorkuna á geisladisk og það leynir sér ekki að eitthvað splunkunýtt er að gerast. Hljómurinn er meitlaðri og þéttari og bæði söngur og gítarar hafa fundið einhvern nýjan frumkraft. Það sem einkennir gítarhljóm I Adapt eru fyrst og fremst einhver sannindi. Hér er á ferðinni ósvikin sorg, ósvikin reiði og jafnvel ósvikin vonbrigði. Það er ónauðsynlegt að rýna í textana til að nálgast þessar tilfinningar, þær eru í sjálfri tónlistinni og næstum eins og sumar þeirra séu hreinlega samofnar inn í gítarhljóminn. Mér liggur við að segja að I Adapt séu mennirnir sem segi satt í heimi sem lýgur. Tilfinningaþrunginn söngur Birkis er líka beint frá hjartanu og hann gefur ekkert eftir í krafti og túlkun.

Lagasmíðar I Adapt hafa einnig í sér nýja og endurnýjaða orku og eru mun fjölbreyttari en á fyrri plötunum. Hér skiptast á hæg og angurvær lög, millihröð og ábúðarfull lög, hröð og rífandi-kjaft lög og snarbrjáluð og öskureið lög. Öll lögin 10 eiga þó sameiginlegt að vera drifin áfram af frábæru gítar-, bassa- og trommuspili sem mynda ótrúlega fallega heild og hljóm sem á sér engan líka. Í þessum orðum skrifuðum eru I Adapt eins og venjulega á þvælingi einhvers staðar í Bandaríkjunum og óska ég þess að þeir dreifi sannindum sínum sem víðast en komi svo heim og segi okkur líka.

Ragnheiður Eiríksdótti