Nýja platan hennar Ragnheiðar Gröndal, Vetrarljóð, er hreint út sagt æðisleg. Ég fékk hana í jólagjöf og er búin að hlusta á hana oft á dag síðan og mér fannst ég bara þurfa að segja mína skoðun á henni.

Tónlistin á þessari plötu er mjög hljómfögur og þægileg að hlusta á, lögin eru vel samin og textarnir eru margir undurfallegir. Þarna eru notuð ljóð kunnugra skálda, þ.á m. ljóð Jóhannesar úr Kötlum og Hallgríms Helgasonar. Af þeim þrettán lögum sem eru á plötunni eru fjögur jólalög. Einnig eru þarna fjögur lög sem Ragnheiður samdi sjálf (þá lagið, ekki textann). Fjögur laganna samdi svo Magnús Þór Sigmundsson, en hann samdi líka einn textanna og ég verð að segja það að mér þykir hann frábær lagasmiður.

Ef ég á að velja úr þau lög sem mér þykja fallegust þá eru það Norðurljós, Nótt, Jólakveðja og Húmar að. Annars eru þau öll mjög góð og ég mæli sterklega með því að allir hlusti á þessa plötu.

Það er eitt sem er svolítið skemmtilegt við litlu “bókina” inni í plötuumslaginu og það er að þar eru meðal annars allir textarnir, en auk þess eru þar höfð nokkur orð um skáldin og/eða merkingu ljóðanna, sem getur verið gaman að lesa.

Ég vona að allir njóti þess að hlusta á Vetrarljóð, sú plata á skilið mikið lof!