Megas - 3. hluti Seint koma sumir en koma þó, hérna er þriðji og seinasti hluti greina sem ég skrifaði fyrir þremur árum, en sendi aldrei inn af óskiljanlegum ástæðum. Fyrri greinarnar má finna hér: http://www.hugi.is/islensk/articles.php?page=view&contentId=5484864 og hér http://www.hugi.is/islensk/articles.php?page=view&contentId=5488154#item7084446

Klæddur og kominn á ról
Á tíunda áratugnum var Megas nokkuð iðinn við kolann og gaf út nokkrar plötur og eina bók. Hann gaf sjálfur út tvöföldu plötuna Hættuleg hljómsveit og glæpakvendið Stella árið 1990 og sama ár var Megas gerður að borgarlistamanni Reykjavíkurborgar en varð það mjög umdeilt á sínum tíma En að því stöð verðandi forsætisráðherra okkar, Davíð Oddsson . Platan Þrír blóðdropar kom svo út árið 1992 og á eftir henni kom tónleikaplatan Drög að upprisu , sú plata var gerð í samstarfi við hljómsveitina Nýdönsk sem þá var ofarlega í vinsældum. Sama ár, eða árið 1994 gaf hann einnig út skáldsöguna Björn og Sveinn, eða makleg málagjöld . Platan Til hamingju með fallið var svo gefin út árið 1996 og var hún unnin í samvinnu við mynd- og tónlistarmanninn Pjetur Stefánsson. Plötutitillinn kom þeim sögum á kreik að Megas væri nú fallinn, þ.e.a.s. byrjaður að neyta áfengis og vímuefna aftur. Hann lét það þó ekkert á sig fá og gaf út aðra plötu árið eftir með Pjetri og nefndist hún Fláa veröld .

Á nýju árþúsundi hafa einnig komið út nokkrar plötur eftir Reykjavíkurskáldið og sú fyrsta var plata sem Megas vann með Jóni Ólafssyni, hljómborðsleikara Nýdanskrar. Platan kom út árið 2000 og nefndist hún því skemmtilega nafni Svanasöngur á leiði – ný íslensk einsöngslög . Með nafninu er væntanlega verið að vísa til þess þess að á plötunni er söngur Megasar í aðalhlutverki ásamt píanóundirleik Jóns.

Árið 2000 fékk Megas verðlaun Jónasar Hallgrímssonar sem veitt voru í tilefni af Degi íslenskrar tungu. Verðlaunin eru veitt þeim sem ,,hafa með sérstökum hætti unnið íslenskri tungu gagn í ræðu eða riti, með skáldskap, fræðistörfum eða kennslu og stuðlað að eflingu hennar, framgangi eða miðlun til nýrrar kynslóðar.” Mörgum þótti löngu tímabært að hann fengi þessi verðlaun en aðrir fussuðu og sveiuðu yfir athæfinu. Þegar Megas var spurður hvað verðlaunin þýddu fyrir hann þá svaraði hann einfaldlega ,,Bunch of money”. Og enn skiptust menn í fylkingar því mörgum blöskraði hreinlega þessi framkoma meðan aðrir skellihlógu og skelltu sér á lær.
Með þessu má segja að lárviðarkransinn hafi endanlega verið kræktur á höfuð meistarans. Er það svo að næsta víst megi telja að nær allir landsmenn þekki til Jónasarverðlauna Megasar en sennilega eru þeir ekki margir sem kunna nöfn annarra handhafa þeirra annars ágætu verðlauna. Má telja líklegt að Megasarverðlaunin hafi sett dag íslenskrar tungu endanlega á almanakið hjá þjóðinni.

Árið 2001 gaf Megas út tvær mjög ólíkar plötur. Sú fyrri, Haugbrot var nokkurs konar upplestrarplata, en þar las hann meðal annars upp úr skáldsögu sinni Björn og Sveinn. Seinni platan var í hefðbundnari stíl og nefndist hún Far þinn veg.
Megas tók því rólega næstu árin og lítið heyrðist frá honum, fyrr en árið 2005 þegar hann gerði plötu með vinum sínum úr hljómsveitinni Súkkat. Þeir kölluðu sig Megasukk og gáfu út plötuna Hús datt og fékk hún ágætis dóma gagnrýnenda þótt hún hafi ekki farið mjög hátt á vinsældarlistunum.

Það var svo loks árið 2007 að nýtt efni heyrðist frá Megasi, en þá hóf hann farsælt samstarf með hljómsveitinni Senuþjófunum. Hljómsveitina skipa meðlimir úr reggísveitinni Hjálmum ásamt gítarleikaranum Guðmundi Péturssyni. Með Senuþjófunum gaf hann út fjórar geislaplötur með stuttu millibili, tvær árið 2007 og eina árin 2008 og 2009. Plöturnar Frágangur og Hold er mold voru hefðbundnar Megasarplötur. Árið 2008 kom út ábreiðuplatan Á morgun en á henni söng hann gömul íslensk lög í sínum einstaka Megasar stíl. Að lokum kom í fyrra út tónleikaplatan Segðu ekki frá (með lífsmarki) en þar tekur kappinn sína helstu slagara með hinum firnagóðu Senuþjófum, en samstarfi þeirra og Megasar lauk nú nýverið. Allar fjórar plöturnar hafa plöturnar fengið glimrandi dóma í öllum miðlum og svo virðist sem menn hafi fyrirgefið skáldinu flest hans skammarstrik og það sást kannski best á gríðarvel sóttum tónleikum sem Megas hélt í Laugardalshöll á haustdögum 2007. En Megas hættir þó ekki að reyna að stugga við fólki því á umslagi plötunnar Hold er mold má sjá þrjár hálfberar stúlkur liggjandi á leiði Jónasar Hallgrímssonar á Þingvöllum. Kannski kemur sú mynd Þjóðargrafreitnum gleymda þar á bæ á túristakortin?


Lokaorð
Megas er eitt af stóru nöfnunum í íslenskri tónlistarsögu hvort sem mönnum líkar það betur eða verr og eftir hann liggja fjöldamörg verk sem hafa komið út á seinustu 35 árum, mörg hver með því allra besta sem Íslendingur hefur samið. Það er erfitt að halda sér ferskum eftir svo mörg ár í bransanum en svo virðist sem Megasi hafi tekist það í gegnum tíðina þó svo að ekki hafi öll hans verk fengið jafn mikla umfjöllun eða sölu. Megas er bæði elskaður og hataður af þjóðinni og hefur oft verið utangarðs, rétt eins og þeir sem menn sem hann fjallar oft um í textum sínum. Megas kom með nýja sýn á textagerð á Íslandi og fór að semja um alvarlegri hluti en áður hafði verið gert og textarnir voru dýpri og beittari en hafði heyrst áður. Þeir fóru fyrir brjóstið á mörgum á meðan aðrir hömpuðu honum sem nýju þjóðskáldi. En þó að Megas hafi fyrstur íslenskra tónlistarmanna samið djúpa og innihaldsríka texta þá varð engin bylting í textagerð landans almennt eftir komu hans, textarnir héldu áfram að vera jafn innihaldssnauðir og þeir höfðu verið með örfáum undantekningum.
Megas hefur aldrei látið alla neikvæðu gagnrýnina á sig fá, hann heldur bara ótrauður áfram á eigin forsendum, en þannig á það líka að vera. Hann er ekki að semja tónlist til að þóknast neinum öðrum en sjálfum sér og hann hefur heldur ekki fetað þá braut að ,,selja sig” markaðsöflunum til að selja fleiri diska. Megas er einstakur í íslensku tónlistarlífi og það er enginn vafi um það að tónlist hans og textar munu lifa með þjóðinni um ókomin ár.


Heimildaskrá
Gunnar Lárus Hjálmarsson. 2001. Eru ekki allir í stuði – Rokk á Íslandi á síðustu öld. Forlagið, Reykjavík.

Geir Svansson og Hjálmar Sveinsson. 2001. Megas. Mál og menning, kistan.is og Nýlistasafnið, Reykjavík.

Gestur Guðmundsson. 1990. Rokksaga Íslands. Forlagið, Reykjavík.

Wikipedia. 2007. ,,Megas”. Wikipedia, frjálsa alfræðiorðabókin. Vefslóð: http://is.wikipedia.org/wiki/Megas. Sótt 28. nóvember 2007.

Jónatan Garðarsson. 2002. ,,Megas”. Tónlist.is. Vefslóð: http://www.tonlist.is/Music/ViewBiography.aspx?AuthorID=2675 . Sótt 28. nóvember 2007.

Menntamálaráðuneytið. 2007. ,,Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar”. Menntamálaráðuneytið. Vefslóð: http://www.menntamalaraduneyti.is/malaflokkar/Menning/dit/nr/658 . Sótt 28. nóvember 2007.