Agent Fresco Árið 2008 hefur hefur verið skelfilega frábært fyrir tónlistarlífið á Íslandi, og þar má telja upp útgáfu In the Depths of Despair frá dauðarokkssveitinni Gone Postal, sem er líklega fyrsta dauðarokksplatan sem gefin hefur verið út á Íslandi í fullri lengd síðan Sororicide gáfu út The Entity á 1991, útgáfu Klive frá listmanninum Úlfi Hanssyni, útgáfu Með suð í eyrum við spilum endalaust frá jaðarhljómsveitinni Sigur Rós, Náttúrutónleika Bjarkar og Sigur Rósar og drykkjuviku Eistnaflugshátíðarinnar á Neskaupsstað.

En það fyrirbæri sem mér hefur fundist standa einna mest upp úr þetta liðna ár er rokkundrið Agent Fresco, band sem spilar tónlist sem ég get aðeins flokkað sem dauðajazz. Stefnan samanstendur af polyrythmískum oddtime-hugsunum sem þeir ýta eins langt og hægt er, að þeim punkti að rokk lýsir þeim ekki lengur, og hugtakið þungarokk tekur við.

Hljómsveitina skipa Arnór Dan Arnarson, Hrafnkell Örn Guðjónsson, Borgþór Jónsson og Þórarinn Guðnason, og til gamans má geta að þeir eru allir nemendur Tónlistarskóla Félags íslenskra Hljómlistarmanna, þar sem þeir eru að læra ýmist klassík eða jazz, og þessi menntun ýtir mjög greinilega undir sköpunargáfu þeirra.

Þetta band skaust upp á stjörnuhiminn íslenskrar dægurtónlistar eftir sigur þeirra í Músíktilraunum laugardaginn 15. mars 2008 og í undankeppni Global Battle Of The Bands á Íslandi laugardagskvöldið 22. nóvember 2008. Í kjölfarið komu þeir út smáskífunni Lightbulb Universe í desembermánuði 2008 sem inniheldur sex lög af þessari frábæru blöndu af geðveiki sem þeir hafa skapað, og var sú skífa gefin út af fyrirtækinu Kimi Records. Það sem mér finnst alltaf skemmtilegast við þessa plötu er að hún er að mestu leyti tekin upp í bílskúr, og þessi hljómur sem henni fylgir hefur einkennt sveitina síðan.

Lagið þeirra “Eyes of the Cloud Catcher” sat í fleiri vikur á topp X-Dominos listans á X-inu 9.77, og framkoma þeirra á síðustu Iceland Airwaves hátið kom þeim á kortið úti í heimi, en þeir fengu meðal annars fimm “K” hjá tímaritinu Kerrang.

Hérna verð ég að stoppa og taka smá stund í að lýsa þeirri reynslu að sjá þessa drengi á sviði. Drottinn minn dýri, þetta er eitt það merkilegasta nokk sem ég hef orðið vitni að síðan ég sá fyrst hvernig Slipknot höguðu sér á sviði í kringum aldamótin. Ég sá þá fyrst í Norðurkjallara Menntaskólans í Kópavogi, og ég hélt ég yrði ekki eldri. Þarna höfðum við fjóra drengi sem ekki bara spila þessa geðveiki heldur taka hana inn í líkama sína og eyslast um eins og Linda Blair í hryllingsmyndameistaraverkinu The Exorcist. Sviðsframkoman er ekkert annað en aðdáunarverð og ég hvet hvern og einasta til að sjá þessa drengi um leið og færi gefst, því þetta er ekkert annað en lífsreynsla.

Undanfarna mánuði hafa þeir vaxið hraðar en öll þau bönd sem ég hef séð áður. Þeir fóru á með Dr. Spock í desembermánuði 2008 og hafa verið gríðalega mikið að spila undanfarin misseri, og hafa því skapað sér nafn sem eitt kraftmesta sviðsband á Íslandi.

Í nýlegri fréttum, þá voru þeir tilnefndir til Íslensku Tónlistarverðlaunanna 2009, sem “Bjartasta Vonin”, ásamt verkefnunum Klive, Retro Stefsen, Dísu og FM Belfast. Það kemur ekki mörgum á óvart að þeir hafi unnið þann titil, þrátt fyrir gríðalega hæfileikaríka keppinauta.

Ég var sjálfur viðstaddur Íslensku Tónlistarverðlaunin í ár, og fékk að upplifa með þeim ánægjuna þegar þeir komu niður af sviðinu með tárin í augunum. Þó að ég þekki þá ekki alla persónulega, þá fékk ég þetta hamingjufulla faðmlag frá söngvara bandsins, Arnóri Dan, þegar hann var nýbúinn að taka við verðlaununum. Þetta eru yndislegir drengir, einstaklega jákvæðir og ávallt hressir, og það hefur alltaf verið yndislegt að hitta þá og þá sérstaklega deila sviðinu með þeim í þessi allt of fáu skipti.

Ég er sammála Íslensku Tónlistarverðlaununum og ætla nú að enda þetta með því að segja að Agent Fresco er klárlega bjartasta von íslenskrar dægurtónlistar.


- Haukur H. Reynisson