Inngangur
“Guð býr í garðslöngunni amma”
Með þessum orðum í sönglagi á fyrstu hljómplötu sinni sem út kom vorið1972 kvað ný rödd sér hljóðs. Rödd hins einstæða söngvaskálds Megasar.

Megas þessi er án vafa einn umdeildasti listamaður sem við Íslendingar höfum átt. Hann er fjölhæfur og hefur samið smásögur og skáldsögur, ort ljóð, málað myndir og síðast en ekki síst samið fjöldann allan af lögum. Í þessari ritgerð ætla ég að einblína mest á þá hlið sem flestir þekkja á Megasi, tónlistar- og textahöfundinn Megas. Megas hefur bæði heillað og hneykslað landsmenn hvað eftir annað, bæði með skrítnu háttalagi sínu sem einstaklingur í hinu borgaralega samfélagi en þó helst með beittum og hnyttnum sönglagatextum þar sem umfjöllunarefnið er oft eitthvað sem er nánast heilagt í augum Íslendinga, s.s. þjóðskáldin, landnámsmennirnir og trúin. En tónlist Megasar er ekki minna fræg en textarnir og það þykir alltaf stór viðburður þegar heyrist að ný plata sé á leiðinni frá Meistaranum, eins og margir vilja kalla hann. Þegar kosið var meðal hljómlistarmanna um bestu íslensku plötur aldarinnar, í tilefni af útgáfu bókarinnar Eru ekki allir í stuði,á árinu 2001 átti Megas níu plötur af þeim hundrað sem taldar voru upp, og þeirra á meðal var platan Á bleikum náttkjólum sem lenti í þriðja sæti á þessum lista. En þrátt fyrir að vera metinn af mörgum fyrir tónlist sína og texta hefur líf hans hreint ekki verið dans á rósum.

Listamaður fæðist

Megas, sem skírður var Magnús Þór Jónsson fæddist þann 7. apríl 1945 og er hann sonur skáldkonunnar Þórunnar Elfu Magnúsdóttur og kennarans og rithöfundarins Jóns Þórðarsonar. Það er því ljóst að hann á ekki langt að sækja skáldagáfuna, en hann hafði fengið bókmenntalegt uppeldi og las allt sem hann komst yfir. Hann var sérstaklega hrifinn af Halldóri Laxness, Hallgrími Péturssyni og Íslendingasögunum. Þegar Megas var á grunnskólaaldri var rokkið að stíga sín fyrstu spor og rokkgoðið Elvis Presley greip fljótt huga hans allan. Megas samdi sitt fyrsta lag aðeins ellefu ára gamall, á sama tíma og Elvis var að koma fyrst fram. Lagið, sem nefndist Gamli sorrí Gráni, átti síðar eftir að rata inn á fyrstu plötu skáldsins sem kom út miklu síðar. Texti lagsins var reyndar samvinnuverkefni hans og nokkurra vina úr Norðurmýrinni. Megas hafði eitthvað glamrað á píanó og hann lærði fljótt að spila eftir nótum. Á þeim tíma sem Elvis kom fram hafði Megas mikla trú á rokkinu, en þegar Elvis fór í herinn á árinu 1961 dó rokkið í augum Megasar og hann hóf að leita á önnur mið. Hann fór að hlusta á klassísk tónverk, en einnig pældi hann mikið gömlum amerískum lögum eftir menn eins og Stephen Foster.

Aftur byrjaður að rokka

Það var svo ekki fyrr en um miðjan sjöunda áratuginn að Megas fór aftur að hafa áhuga á rokktónlist, en þá átti goðsögnin Bob Dylan hug hans allan, ásamt hinum breska Donovan.Þessir eiga það sammertkt að spila á gítar og flytja nær eingöngu eigin lög og texta. Megas fylgdist eitthvað með þeirri íslensku tónlist sem var vinsæl á þessum tíma og fannst honum Hljómarnir, hinir Keflvísku Bítlar, t.a.m. vera að gera góða hluti tónlistarlega séð, en öðru máli gegndi um textana sem honum þótti vera of gamaldags og alvörulausir. Ekki þótti honum textarnir hafa skánað mikið þegar allir fóru að syngja um frið og bróðurkærleika á hippatímanum, og nær dró 8.áratugnum.,,Þá fyrst urðu þeir vondir. Djöfulli ofsalega vondir.” Megas byrjaði svo sjálfur að semja lög af alvöru þegar hann fluttist til Noregs ásamt konunni sinni sem var þá í námi. Hann skráði sig sjálfur í nám þar í landi en tók það ekki alvarlega og fór að vinna sem næturvörður. Það voru svo félagar hans í Noregi sem hjálpuðu til við að gefa út hans fyrstu plötu sem nefndist einfaldlega Megas. Plötuna tók hann upp á 20 tímum en það þótti Megasi mikið fyrir plötu sem var ekki nema 40 mínútur. Meðspilarar Megasar voru norskir popparar sem voru í námi og spiluðu þeir launalaust. Platan olli gríðarmiklu fjaðrafoki enda voru textarnir flugbeittir og fetaði Megas á slóðir sem enginn hafði hætt sér áður, gerði t.a.m. grín að dauða Jónasar Hallgrímssonar, og sagði einnig að það hefði verið betra að skip Ingólfs Arnarssonar hefði sokkið. Það sem vakti þó hörðustu viðbrögð landsmanna var lagið Vertu mér samferða inní blómalandið amma, þar sem Guð og trúin fá rækilega á baukinn, en í laginu segir meðal annars að Silli og Valdi hafi legið Maríu Mey áður en Guð kom til. Platan fékk mjög neikvæða dóma í fjölmiðlum, og átti erfitt uppdráttar í plötubúðum og sagði eigandi einnar plötubúðarinnar að ef fólk ætlaði að eignast þetta djönk yrði það að gera það strax, því það kæmi aldrei aftur. Brot af plötunni náði inn á spilunarlista Ríkisútvarpsins en platan var svo bönnuð í heild sinni þar á bæ. Fyrsta upplag plötunnar seldist þó upp þrátt fyrir allar hrakfarirnar. Einkum var það selt í Bóksölu stúdenta sem þótti frumleg og framúrstefnuleg í vali á sölubókum og því um líku.

Skothelt eins og venjulega

Eftir frumraunina leitaði Megas eftir útgefanda fyrir sína næstu plötu, en það gekk hreint ekki vel. Eftir að hafa verið dreginn á asnaeyrunum í þrjú ár hafði hann samband við hina nýstofnuðu Demants- útgáfu og þeir voru til í að gefa út plötuna og hafa hana svipaða þeirri fyrri. Megas sagði hins vegar að hann vildi gera hana öðruvísi, með venjulegum rokkhljóðfærum og bað útgáfuna um að finna handa sér hljómsveit til að spila undir. Hljómsveitin Júdas sem þá var vinsæl rokkhljómsveit var fengin til þess og platan var loks gefin út árið 1975 og nefndist Millilending. Platan fékk mun betri viðtökur en fyrri verk Megasar og menn töluðu nú um að textarnir væru ,,skotheldir eins og venjulega”. Ári síðar kom svo út platan Fram & aftur blindgötuna en þar hafði hann fengið með sér hljóðfæraleikara úr Hljómsveit Pálma Gunnarssonar og Eik. Platan fékk fínar viðtökur og eftir útgáfu hennar fékk Megas greidd listamannalaun úr ríkissjóði. Skáldið var komið með viðurkenningu frá hinu opinbera.

Það var svo árið 1977 sem þekktasta plata Megasar leit dagsins ljós. Platan sem nefndist Á bleikum náttkjólum var unnin í samstarfi með Karli Sighvatssyni orgelleikara og þremur meðlimum úr hljómsveitinni Spilverk þjóðanna. Hljómsveitarmeðlimir höfðu eitthvað kynnt sér fyrra efni Megasar og þótti gott en fannst þó hljóðfæraleikurinn fullmikið bundinn, þeir vildu fá að hafa meira að segja og skapa á plötunni. Hljómsveitin fékk því að leika lausum hala, og var mikil tilraunamennska í gangi. Lengst gekk tilraunamennskan í laginu Paradísarfuglinn þar sem hljómsveitarmeðlimir spiluðu á hljóðfæri sem þeir þekktu ekkert til. Margir vilja meina að Paradísarfuglinn sé fyrsta íslenska pönklagið, og það kom út nokkrum árum áður en pönkbylgjan náði að skjóta rætur hér á landi. Platan fékk strax góðar viðtökur gagnrýnenda og almennings. Megasi tókst þó enn og aftur tekist að hneyksla einhverja með hegðun sinni, þá sérstaklega með sjónvarpsauglýsingu sem myndi í dag teljast sem ,,flipp”, en í auglýsingunni mátti sjá Megas og hljómsveitarmeðlimi í skrýtnum gervum að gera alls kyns undarlega hluti, eins og að ,,hommast” en það var mikið tabú á sínum tíma. En viðtökurnar á plötunni voru þó almennt mjög jákvæðar og má segja að þarna hafi Megas náð hátindi ferils síns.
Eftir að Megas var búinn að koma sér í mjúkinn hjá fólki með seinustu plötu sinni hvatti vinur Megasar, Páll Baldvin Baldvinsson, hann til að gefa út barnaplötu. Það var svo árið 1978 sem hún kom út og nefndist platan Nú er ég klæddur og kominn á ról. Platan var mjög lágstemmd, innihélt aðeins selló, fiðlu og söng, og voru sum lögin útsett þannig að mörg börn urðu dauðhrædd við að hlusta á þau. Platan var umdeild á sínum tíma, bæði vegna útsetninganna en einnig vegna þess að Megas söng á henni. Fólk spurði hvernig ,,hrotti” eins og Megas gæti vogað sér að gera barnaplötu, en margir telja plötuna þó með betri barnaplötum sem út hafa komið hér á landi.


_______________________________
Heimildaskrá kemur með seinustu greininni. Greinin verður annað hvort í þremur eða fjórum hlutum.