Í kjölfarið á því að sjá Samúel Jón Samúelsson, með sitt ágæta Big Band, í Skífunni, þeirri ágætu búð, aðra helgina í júní árið 2007, ákvað ég að kaupa mér diskinn hans, “Fnykur” sem tekinn var upp í “the hot tub” (enn eina íslenska hljóðupptökuverið með voðalega fyndnu heiti) í mars/apríl, 2007 og gefin út skömmu eftir það.

Það fyrsta sem segja má um heildarsvip plötunar, áður en lesið er úr einstaka lögum, er að lengri tími hefði mátt fara í upptökur og almenna hljóðvinnslu. Platan hljómar ekki fullgerð á köflum og hefur leiðinlegan ‘stúdíó’ keim yfir sér frá upphafi til enda. Á alla trompeta spilar Kjartan Hákonarson (fyrir utan nokkur sóló), Óskar Guðjónsson spilar á saxafóna (fyrir utan það þegar Jóel Pálsson tekur í tenor saxafóninn) og sér Samúel sjálfur um básúnuna. Þetta ýtir plötunni niður á við þar sem mismunandi stílar, mismunandi tilbrigði við tónlist Samma og samhljómur margra hljóðfæraleikara hefði skarað frammúr sama stíl hverjar blástursdeildar eins og uppsetning plötunnar hefur með sér að bera. Skapar þetta mjög súra stemningu á plötunni að mati undirritaða.

Þegar á björtu hliðina er litið má heyra hressandi og skemmtileg lög í takt við rokkaða slagar þar sem þungamiðja lagana eru hnitmiðuð og oftar en ekki áhugaverð ‘riff’ sem héðan í frá verða kölluð “Samma riff.” Lög eins og “Lítið skrítið” og “Mr. Funky goes straight” koma líkt og þrumur úr heiðskýru lofti með rólegar, yfirvegaðar melódíur en lög eins og “Hardcore” og “Boba” sitja eins og klettar með “Samma riffin” tröll ríðandi öllu sem þorir að koma nálægt.

Eftir að vera búinn að hlusta á allan diskinn tvisvar fer ég að hugsa hvort þessi lög séu ekki svipuð því sem ég mun fá að heyra þegar Jagúar, íslenska funk bandið sem Samúel er einmitt forsprakki í, gefur út næstu plötu sína. Heyra má keimlíkar pælingar í gegnum allan diskinn og er hugmyndaflugið ekki á sömu hillu og diskurinn sjálfur í þetta skiptið.

Ég gef “Fnykur” með Samúeli Jóni Samúelssyni 2 og hálfa stjörnu af 5 mögulegum.