Útgáfutónleikar Péturs Ben Útgáfutónleikar Péturs Ben, þann 24. ágúst, árið 2006, komu mér ekkert á óvart. Ég hef séð Pétur Ben 3svar sinnum á tónleikum áður en ég fór á útgáfutónleika hans og hefur hann í hvert einasta skipti komið mér á óvart. Því ákvað ég í þetta sinn að hann myndi ekki fá að koma mér á óvart, og ég stóð fast við það í gegnum alla tónleika. Ég skal viðurkenna að ég var á mörkunum að láta koma mér á óvart á köflum, en ég hélt í þrjósku og þröngsýni og leyfði honum ekki að komast í gegn. Ok, ekki alveg satt. Ég náði að halda inni í mér þangað til hann tók Michael Jackson slagaran; Billy Jean! Þá sprakk ég úr gleði, því sú útgáfa af Billy Jean er algjörlega, í hógværni sagt: BILUN! Ég hefði viljað sjá þá útgáfu á disknum hans, sem “hidden song” - en ég varð því miður ekki að ósk minni þar…kannski næst? Eða kannski á live disk? Ég held í vonina!

En til þess að koma sér úr nostalgíu Billy Jean's og byrja að skrifa um tónleika Péturs Ben. Ég byrjaði tónleikana fremst, alveg fremst. Vildi sjá alla tónlistarmennina “up close” áður en ég færi aftar fyrir betra hljóð. Öll lögin á disknum voru tekin, í sömu röð og á disknum sjálfum; sem er gömul og góð hefð á útgáfutónleikum. Ég tók reyndar ekkert eftir því þar sem ég hafði ekki hlustað á diskinn fyrr en eftir tónleikana, en mér þótti uppröðunin á lögunum mjög fín á meðan á tónleikunum stóð. Fyrstu þrjú lögin voru afar góð. Look in the fire var kjörið upphafslag með mikilli dramatík, þríröddun hjá Pétri, Tobba og Mogobile Font kom ágætlega út þó svo að ég hafi fundið fyrir flötum nótum - en þetta er rokk, þetta á að vera svona (hugsaði ég með mér). Þriðja lagið, I'll be there, er án efa eitt það fallegasta lag sem ég hef heyrt koma frá íslendingi. Fer á toppinn með “Þú fullkomnar mig” (Sálin), “Móðirin” (Bubbi) og “Við erum menn” (KK). Mér þótti útgáfan sem hljómsveitin tók á þessum tónleikum mjög fín. Slagverkið kom mér skemmtilega á óvart og fékk það að njóta sín hvað best í því lagi. Það eina sem fór í taugarnar á mér í þessum þremur fyrstu lögum, þar sem ég stóð fremstur allra og starði á tónlistarmennina, var surgið í hátölurunum vinstra megin við mig. Ég veit ekki hvort að keila hafi farið eða einhverjar snúrur orðnar skítugar, en ég missti algjörlega einbeitinguna þegar surgið þandi sína rödd. Fyrir utan það fannst mér fyrstu þrjú lögin hvað allra best.

Ég færði mig aftar; betra hljóð og surgið var horfið en þá kom í ljós stirðleiki hljómsveitarinnar. Þar var Mogobile Font fremstur í fararbroddi. Ég ber mikla virðingu fyrir honum og öllu því sem hann gerir og hefur gert, en mér fannst hann engan veginn passa inn í þetta verkefni. Einnig sá ég ekki alveg tilganginn í stelpunni með eplið og tölvuna sína. Oftar en ekki var playback-ið á vitlausum stöðum, eða ennþá í spilun eftir að lagið var búið. Mér fannst hún í rauninni bara vera fyrir á sviðinu, hefði alveg eins getað verið hjá hljóðmanninum og gefið Pétri meira pláss til að hreyfa sig á sviðinu. En hún byrjaði síðan að syngja bakraddir og gerði það vel, svo best sem ég heyrði (enda heyrðist ekki beint mikið í henni útí sal, og var það ekki henni að kenna heldur hljóðmanninum (að mínu mati)). Mér fannst bassaleikarinn, slagverksleikarinn og gítarleikarinn standa sig mjög vel í gegnum öll lögin, fann ekki fyrir miklum stirðleika frá þeim nema þá bara þeim stirðleika sem Fontið gaf frá sér og stirðleika sem sveimaði yfir sviðinu. Það var eins og þetta band hefði komið saman daginn fyrir tónleikana, allir búnir að hlusta á geisladiskinn og spila inná hann í studio-inu, en vissu ekkert hvernig þeir ætluðu að spila lögin á sviði. Það var tilfinningin sem ég fékk þegar ég horfði á afganginn af tónleikunum í aðeins meiri fjarlægð, í fjarlægð frá surginu og sviðshljóðinu.

Öll lögin hans Péturs eru vel smíðuð. Þetta er, í fullri alvöru, rosalega falleg lagasmíð hjá stráknum. Allt frá “hráu-kúabjöllu-rokki” yfir í vögguvísur, frá “ambiant-pinkfloyd-ballöðum” yfir í þungarokkið. Þó svo að lögin spanni svona víðan völl þá nær Pétur að halda í sinn svipleika í hverju lagi, með vel samsettum hljómum, hljómagöngum, áhugaverðum bakraddapælingum, flottri dínamík og yfir höfuð mjög fallegri lagasmíði. Það sem vakti einnig áhuga minn var árátta hans til að útskýra textan í hverju lagi fyrir sig. Það er allt gott og blessað. Ef hann telur textan ná betur þeim skilningi sem hann á að bera til áhlustenda, eftir að hafa útskýrt um hvað hann er, þá gerir hann það auðvitað. Mér finnst hinsvegar stundum þægilegt og oftar en ekki nauðsynlegt að vita ekki söguna á bakvið lagið. Þá getur hver og einn túlkað textan á sinn máta og myndað sér sögur á bakvið hann, í staðin er sögunni komið fyrir og ekkert svigrúm gefið til að láta hugan taka inn textan og móta hann að eigin sögum.

Ég get ekki sagt annað en að ég hafi farið mjög sáttur heim af tónleikunum og að ég eigi eftir að hlusta á diskinn hans marg oft, um ókomna tíð.

Þakka kærlega fyrir góða tónleika,
Magnús Ingi Sveinbjörnsson