Ég fór á tónleika með Benny Crespo's Gang og Ókind í kvöld, MH var “the place to be” fyrir mér í rúman klukkutíma, og mátti heyra saumnál hlæja þegar gengið var inn í tilturlega tómt herbergi þar sem andstæða þagnar átti eftir að ríkja skömmu síðar. Nú, tónleikarnir heppnuðust bara svona ágætlega, hljóðið var svosem í lagi, spilamennska til fyrirmyndar hjá báðum hljómsveitum og meira að segja það mikið til fyrirmyndar hjá Ókind að ég ákvað að kaupa mér geisladiskinn þeirra á leið minni út úr MH. Diskurinn kominn í hendurnar eftir súrar samræður við freðinn MH-ing (takið eftir, ég hef ekkert á móti MH-ingum, það er bara í tísku að tala svona um þetta fólk…ég vill ekki vera skilinn eftir út undan!). Nú var ég að koma heim og setti diskinn á fóninn og ætla að þylja upp það sem að mér finnst um hvert lag fyrir sig. Verði þér og þínum að Góu!

Track 1 – Heimsendi 19
Rosalega flottur hljómagangur. Við fyrstu áhlustun kemur hann rosalega á óvart því að maður býst bara við því að hann endurtaki sig eins og mörg mainstream lög á 4 hljóma fresti, en þessi heldur bara áfram og áfram. Kannski er það vegna þess að Ókind eru ekki beint mainstream, og ekki ætla ég að fara að fjalla hér um hvað mér finnst mainstream vera enda værum við þá hér í allt kvöld!

Sko, lagið er í heildina litið rosalega vel framkvæmt finnst mér. Flott upptaka, skemmtilegt sánd sem að ég fýlaði ekki alveg í fyrstu hlustun en það venst einhvernvegin. Mér fannst t.d. pianoið hljóma fyrst alveg hræðilega, en síðan byrjar það að passa betur og betur við lagið. Það sem að mér finnst ekki passa við lagið er miðkaflinn, þessi “rólegi” kafli sem að kemur eins og sól í þrumuveðri. Mér finnst eins og hann hefði mátt vera í öðru lagi eða eitthvað, það er eitthvað við þann kafla sem að ég er ekki viss um þó svo að hann sé ótrúlega flottur einn og sér.

Allt annað er til fyrirmyndar. Virkilega flottar bassalínur, flott hvernig gítarinn og pianoið vinna saman á hljómunum, opna þá og loka þeim til skiptis, rosalega flott!

Track 2 – Ó, Ég
Hugmyndin á bakvið þetta lag er æðisleg! Ég tel hljómsveitir stundum fjalla of mikið um ástina, stelpur/stráka og á Íslandi; um mosa! Þegar ég heyrði þetta lag fyrst lifandi (“live”) þá brosti ég breytt og fann jafnvel fyrir þremur dropum af gulu vatni leka niður buxur mínar. Ég segi ekki að ég hafi pissað á mig af kæti, en það er á hreinu að buxurnar mínar voru ekki blautar þegar ég kom inn á tónleikinn! Lagið, “Ó, Ég” inniheldur skemmtileg riff. Gítarinn er á endalausu flakki, eða manni finnst það allavegana og kemur líklega stíll Inga (gítarleikara Ókindar) mikið þar við sögu. Mér finnst skemmtilegt hvernig viðlagið er taktfast, á þann máta að laglínan hefur bassan, gítarinn og trommurnar með sér í þessu annars undarlega formi rythma. Það koma tveir instrumental kaflar í laginu og finnst mér þeir passa rosalega vel inní, þar er Ingi einmitt að gera mjög skemmtilega hluti. Endirinn toppar þetta lag og fullkomnar það fyrir mér. “Fallega skapaður!”

Track 3 – Illar Dylgjur
Hvaða shaker er þetta í byrjun á laginu? “Þetta hljóð, þú veist hvað það er…” Já, allt í lagi. Shakerinn kemur síðan aftur inn, gott! Flottur taktur! Jæja, til þess að ég fari nú að koma úr mér þvælu sem að einhver skilur, þá ætla ég að byrja uppá nýtt:

Það fyrsta sem að ég get sagt varðandi þetta lag er að viðlagið er æðislegt! Einnig finnst mér bassariffið í byrjun rosalega flott og mjög skemmtilegt hvernig trommurnar koma inn, flott sánd á trommusettinu. Ég man eftir því þegar ég heyrði þetta lag fyrst lifandi (“live”), ég fór af þeim tónleikum þyljandi þetta lag og þá aðalega versið þar sem að hreina fimmundin kemur rosalega vel út. Fyrir þá sem að þekkja ekki inn á hljómfræði þá er ég að tala um röddunina í versinu. “Þarft ekki að hlusta á meira!” Rosalega flott! Það sem að fullkomnar þetta lag fyrir mér er rólegi kaflinn. Textinn í honum er svo æðislegur og endirinn út frá þessum kafla er algjör gullmoli! Þetta lag er uppáhalds hingað til, en ég á líka 6 lög eftir…!!

Track 4 – Sem Hreyfast
Ég tek það sem að ég sagði hér fyrir ofan til baka. “Sem Hreyfast” er uppáhalds! Það eina sem að mér finnst ekki flott er sándið á trommusettinu. Nú er ég sjálfur trommari og því á ég líklega eftir að setja hvað mest út á trommurnar í þessum pistli mínum, en ég hefði viljað meira reverb á settið. Það er aðeins of þétt fyrir mig. Nú er ég búinn að heyra þetta lag spilað lifandi (“live”) oftar en einu sinni og ég ýmindaði mér alltaf trommurnar svipaðar og í “Gong” með Sigur Rós. Stórt og mikið reverb. Ef að ég lít frammhjá þessari pælingu minni þá tel ég þetta lag æðislegt. Kaflinn í miðjunni kemur eins og sól á Spáni, ekki á óvart en alveg 100% eins og maður býst við honum! Hey, 4/4 talning inn í næsta lag…flott skipting!

Track 5 – Hraðlestrarnámskeið
Ég ætla héðan í frá að hætta að segja að einhver lög á þessum disk séu uppáhalds. Þetta er of mikið fyrir mig! Riffið í þessu lagi er algjörlega málið. Ég er strax byrjaður að headbanga (fyrir þá sem ekki vita hvað það er, þá er ég að hreyfa hausinn framm og aftur í takt við lagið..mjög kúl..prófið það!). Hljómagangurinn í versinu er mjög flottur, í rauninni eins og allir hljómagangar hjá Ókind. Þeir koma mér alltaf jafn skemmtilega á óvart. Textinn við þetta lag er hinsvegar án efa uppáhalds. Hann er næstum því jafn skemmtilegur og textinn við lagið Hæna af disknum þeirra Heimsendi 18. Í endan á laginu kemur riffið alltaf sterkar og sterkar inn alveg þangað til að það einfaldlega getur ekki verið þyngra. Ég er að fýla þetta lag í dúndrandi tætlur!

Track 6 – Þoturass!
Þetta lag er orðið hálfgerð upplifun þegar Ókind spila opinberlega. Þeir tóku þetta lag ásamt Hænu á tónleikunum í MH þann 9. mars og verð ég að segja að það olli mér engan veginn vonbrigðum! Ég held að þau lög passi mjög vel saman, bæði stutt og hnitmiðuð og í nett flippuðum pælingum. Riffið í Þoturass! er rosalega skemmtilega sett saman. Það tók mig hinsvegar smá tíma að fýla gítarinn í viðlaginu. Mig minnir eins og ég hafi heyrt aðra útgáfu af þessu lagi þar sem að gítarinn elti bassan og riffið meira en hann gerir núna í þessari útgáfu. Hann er að taka rosalega undarlega hljóma, ofarlega, í þessari útgáfu sem að ég fýlaði ekki til að byrja með. Hinsvegar kemur það bara með tímanum, og í raun komið eftir fyrstu hlustun…

Track 7 – Verst Klædda Stjarna Ársins
Haha! Þetta lag er frábært. Það er harla mikið sem að ég get sagt um það hinsvegar. 1:44 í lengd gefur manni ekki mikið til að tala um. En þetta finnst mér rosalega skemmtilegt að heyra, svona interlute yfir í Síðasta Söludaginn, sem er einmitt næsta lag á disknum.

Track 8 – Síðasti Söludagur
Steingrímur fær hér með lof í buxurnar sínar fyrir texta á þessari plötu. Þegar ég les yfir textan (sem að fylgir einmitt með þegar maður kaupir plötuna!) þá hlæ ég innra með mér og sé Steingrím fyrir mér heima hjá sér með matarkex og mjólk að skrifa texta á borð við þessa eins og við hin drekkum vatn. Nei kannski ekki, en hugsanlega nálægt því!

Mjög skemmtilegt hvernig lagið byrjar eins og það sé tekið upp bara á æfingu. Gítar rugl, “1, 2, 3, 4” og svo kabúmm, eitt stykki æðislegt lag farið í gang. Þegar viðlagið fer á flakk finnst mér mjög flott hvernig hljóðið opnast örlítið betur, nett stereo widening sem að virkar vel fyrir mig og AKG K271 Studio heyrnatólin sem að ég er að hlusta á diskinn með. Lagið er í alla staði til fyrirmyndar!

Track 9 – Þetta Númer Er Upptekið
Síðasta lagið á disknum. Byrjar mjög svo mikið eins og lag sem að á að vera síðast á disk, vel valið að mínu mati. Nú er ég ekki alveg viss um hvað Steingrímur er að fjalla um í texta sínum við þetta lag. Ætli það sé verið að tala um konuna sem að segir “Þetta símtal getur ekki varað lengi” og “Inneign þín er að klárast” ? Ég ætla að gefa mér það. Eftir að hafa gefið mér það, verð ég að gefa Steingrími aftur hrós fyrir fallegan og vel saminn texta.

Þetta lag minnir mig á Todmobile, ekki að það sé líkt lagi með Todmobile, en ég vildi bara segja þetta…rosalega vel sungið! Í raun alveg ótrúlega flott lag. Ég get ekki annað sagt en að þetta lag fullkomni diskinn. Flottar raddanir, flottur (hálfgerður) fiðlueffect sem að dynur undir, rosalega fallegur hljómagangur sem að ég fæ ekki leið á því hann er síbreytilegur heyrist mér. Ég held svei mér þá að Ókind hefðu ekki getað samið betra lag en þetta til að enda disk sinn á. Innilega til hamingju með það!

Samantekt
Diskurinn sándar mjög vel og Birgir (bassaleikari Ókindar) fær algjörlega mitt lof fyrir vel unnin störf. Einnig fær sérstakt hrós Eyþór Páll Eyþórsson fyrir frammúr skarandi artwork á þessum disk. Hann er algjörlega til fyrirmyndar! Allir meðlimir hljómsveitarinnar eiga lof skilið, þessi diskur á eftir að óma í græjum mínum oftar en tvisvar, því get ég lofað ykkur! Gott rennsli, flottar pælingar hægri vinstri, vel samin, vel spiluð og vel útsett lög. Ég held svei mér þá að ég sé kominn í gott skap aftur, eftir langvarnadi fýlu (síðan að Heimsendi 18 kom út) er ég loksins kominn í gott skap…!!

Takk Ókind, fyrir að koma mér í gott skap!

Magnús Ingi Sveinbjörnsson