Hver man ekki eftir hljómsveitinni Kolrassa Krókríðandi sem sigraði Músíktilraunir árið 1992?
Seinna tók sveitin svo upp nafnið Bellatrix og ætlaði að gera allt vitlaust á erlendri grundu, eitthvað mistókst það nú samt.

Kolrassa Krókríðandi var svolítið sérstök hljómsveit vegna þess að í henni voru aðallega stelpur, aðeins einn karlmaður var og barði hann húðirnar (var trommuleikarinn). Svo var einnig mjög sérstakt að hljómsveitin var með fiðluleikara, hana Elízu M. Geirsdóttur sem var líka söngkonan, en einnig voru í bandinu þau Ester Bíbí Ásgeirsdóttir (bassi, raddir), Sigrún Eiríksdóttir (rafgítar, raddir), Anna Margrét Hraundal(rafgítar, raddir) og Karl Ágúst Guðmundsson (trommur, ásláttur, raddir).

Árið 1994 gaf hljómsveitin út geisladiskinn Kynjasögur hjá Smekkleysu og langar mig að fjalla svolítið um þann disk og skoðanir mínar á honum hér.

Lögin á diskinum eru í þesari röð:
1. (Þú deyrð) Í dag
2. Engill
3. Ljáðu mér vængi
4. Ég gef mér
5. Ikarus
6. Hver vill þjást?
7. Froskaprins
8. Beljan mín
9. Hlutverk
10. Anna
11. Ormadans
12. Ó, ég er svo svöng


Diskurinn “flæðir” frekar vel ef að maður lætur hann bara rúlla í gegn, lögin falla vel saman án þess þó að hljóma einsog tólf útgáfur af sama laginu eða fara í graut. Textarnir eru flestir frekar frumlegir og skemmtilegir og hljóðfæraleikurinn alls ekkert til að kvarta yfir, svo kemur fiðlan hennar Elízu mjög vel út og veitir tónlistinni angurværan blæ og frísklegan á köflum.


Geisladiskurinn hefst á laginu (Þú deyrð) Í dag og er það frekar hresst lag og koma bakraddirnar vel út. Lagið er eftir Kolrössu en textinn eftir Elízu.

“Segjum sem svo að þú sért ég
og allt sem ég áður fann fyllir mig
öll dauðu kvöldin þér við hlið
geturðu sagt honum ég elska þig”



Næst kemur svo lagið Engill sem er rólegt og fallegt lag og fiðlan er sterk í því. Textinn er mjög fallegur og svolítið sorglegur, og mann langar næstum til að fara að gráta yfir því. Lagið er eftir Kolrössu og textinn eftir Elízu og Sigrúnu.

“Langt uppí buskann þeytist ég inni í
mér
Kannski einn dag…
ég hitti þig þar”



Nú er komið að laginu Ljáðu mér vængi sem er kraftmikið rokklag og mér finnst trommuleikurinn í því mjög skemmtilegur, sem og textinn. Lagið er eftir Kolrössu og textinn eftir Elízu, en í honum er vitnað í ljóð eftir Huldu skáldkonu.

“Lof mér kroppa fjöður af
lykta hana eins og náinn
grafa hana holu í
geyma þar til hún er dáin.”



Ég gef mér er fjórða lagið á disknum og er það svolítið sérstakt vegna þess hve laglínan er sterk í því, en hún er spiluð á gítar, bassa og fiðlu. Svo kemur líka vel út að það er svona “lalala” í viðlaginu sem lætur mann fá það á tilfinninguna að það séu litlir púkar að gera grín að þeim sem hlustar á lagið og tónlistarmönnunum sjálfum. Lagið er eftir Kolrössu og textinn eftir Elízu.

“Það er erfitt að vera svolítið vitlaus
að skilja og skynja minna en allt
og einhversstaðar sitja vondir vinir
og hlæja með tárin í vösunum.”



Lag númer fimm er lagið Ikarus og er textinn í því eftir Huldu G. Geirsdóttur en lagið eftir Kolrössu. Textinn er saminn útfrá goðsögninni um Ikarus sem bjó sér til vængi úr vaxi og flaug upp að sólinni en gætti sín ekki, fór of nálægt og vængirnir bráðnuðu. Fiðlan kemur skemmtilega út í þessu lagi og bassinn einnig og flott hvernig þessi tvö hljóðfæri blandast saman en eru samt andstæður.

“Ikarus, ég er Ikarus
sólin svíður, ástin er eldhnöttur
haltu þig fjarri eða fuðraðu upp.”



“Þegar stórt er spurt verður lítið um svör”, þessa setningu mætti nota til að lýsa lagi númer sex, en það heitir Hver vill þjást?
Byrjunin á laginu er skemmtilega hress sem og allt lagið. Lagið er eftir Kolrössu og textinn eftir Elízu.

“Hjartað í umslag ég tróð því
langt langt ofan í skúffuna mína
ég leita ég leita ég leita
en ég finn það aldrei meir.”



Lag númer sjö er eiginlega í minnstu uppáhaldi hjá mér af lögunum á þessum diski en það heitir Froskaprins. Það er frekar rólegt og byrjar á gítarspili og smá blístri. Þó svo að þetta lag sé í minnstu uppáhaldi hjá mér þá er það mjög flott og mér finnast skrækirnir í endann á laginu koma vel út. Lagið er eftir Elízu og Bíbí og textinn eftir Elízu.

“Mig hefur dreymt alla ævi
að eitthvað hendi mig
að ég komi til.”



Næsta lag er frekar skondið lag sem heitir því hressa nafni Beljan mín. Lagið fjallar nokkurnveginn um öfund, eða unga konu sem öfundar beljuna sína… allt frekar sérstakt eitthvað. Fiðlan nýtur sín vel í þessu lagi og er viðlagið skemmtilegt, en það samanstendur af öskri… (oooooóóóóóojojojojvooóóóaaaa….!!!) Lagið er eftir Kolrössu og textinn eftir Elízu.

“Hún er beljan mín, hún er svo sæt og fín
beljan mín hún er uppáhalds vinkona mín
alveg satt, sjáið hvernig allir strákarnir horfa á
hana oh, en hvað verður um mig?
sjáið þig ekki mig? Hvað verður um?”



Lag númer níu heitir Hlutverk og er skemmtilega frísklegt. Það er frekar fjörugt og svolítið grípandi… allavegana fæ ég það á heilann auðveldlega. Lagið er eftir Kolrössu og textinn eftir Elízu.

“ég á engin orð,
ég er bara bullukolla
og ég flækist fyrir mér
og einn plús einn eru átta milljón skrilljón!”



Tíunda lagið er sérstakt, en það heitir Anna og er bara hljóð í barni/börnum að leika sér… voðalega sætt alltsaman. Svo er spilað á gítar með.



Lagið Ormadans er númer ellefu og ég veit varla hvernig á að lýsa því… lagið er mjög kraftmikið og skemmtilega klikkað. Lagið er eftir Kolrössu einsog flest lögin á þessum diski og textinn eftir Elízu.

“Mér er sama hvað þú segir
Ormadans”


Lokalagið er svo lagið Ó, ég er svo svöng og þess má til gamans geta að það var uppáhaldslagið mitt þegar að ég var yngri. Lagið er með sterkri laglínu og alveg ótrúlega grípandi. Textinn er fyndinn og skemmtilegur og svolítið líkur textum á barnaplötum. Lagið er eftir Kolrössu.

“Ó, ég er svo svöng
mig langar að borða húsin
mig langar að borða bílana
mig langar að borða götuna og fólkið líka
ó, ég er svo svöng!
nammi nammi nammi nammi….”



Þá hef ég lokið við að fjalla um geisladiskinn Kynjasögur með Kolrössu Krókríðandi. Verði ykkur að góðu.


Takk fyrir mig
-Júlíana K.