Sálin hans Jóns míns Sálin er ein besta íslenska hljómsveit sem ég veit um og þess vegna ákvað ég að skrifa aðeins um núverandi Sálverja, þá Stefán, Guðmund, Friðrik, Jens og Jóhann. Öll saga hljómsveitarinnar er of löng til að ég fari að skrifa hana hér.

Hljómsveitin Sálin hans Jóns míns var stofnuð árið 1988. Ætlunin var að flytja aðeins soultónlist og vildu meðlimir sveitarinnar þess vegna finna nafn sem tengdist því. Var þá stungið upp á “Sálin” en það gekk ekki upp, því hljómsveit sem spilaði á sjöunda áratugnum hét því nafni. Þá stakk Guðmundur gítarleikari í hljómsveitinni upp á nafninu “Sálin hans Jóns míns” (sennilega vegna þess að það var Jón Ólafsson sem skipaði mönnum í sveitina (er samt ekki viss)).

Stefán Hilmarsson (söngur) fæddist í Reykjavík árið 1966. Hann var í Hlíðarskóla og æfði handbolta með Val og fékk gott orð fyrir það. Hann byrjaði frekar seint í tónlistarbransanum, ekki fyrr en hann útskrifaðist sem stúdent frá Kvennaskólanum árið 1986, en þá fékk hann mikinn áhuga á þungarokki og var oft hjá gömlum bekkjarbróður sínum að spila á trommusettið hans. Fyrsta hljómsveitin sem hann lék í var Reðr, með nokkrum bekkjarbræðrum Stefáns úr Hlíðarskóla. Þegar hann var 19 ára, nemi í Kvennó, var hann í hljómsveitinni Bjargvætturinn Laufey með nokkrum skólafélögum sínum. Björgvin Ploder sá fyrir þeirri hljómsveit og fékk síðar Stefán með sér í Sniglabandið þar sem Stefán söng í 2 ár. Árið 1987 var hann fenginn til að syngja í Soul-pojekt og varð síðan það band að hljómsveitinni Sálinni hans Jóns míns.
Stefán á sér eigin heimasíðu: http://www.mmedia.is/stefanhilmars/index.html

Guðmundur Jónsson (gítar/bakrödd) ólst upp á Skagaströnd og var þar á gítar í hljómsveitinni Janus. Á unglingsárunum flutti hann til Reykjavíkur. Þar stofnaði hann hljómsveitina Klikk sem gaf út einn geisladisk. Guðmundur samdi mikið af lögum, m.a. flest lögin á Klikk plötunni. Árið 1984 hætti Guðmundur í hljómsveitinni og fór á togara. Þegar hann kom heim aftur byrjaði hann að semja aftur og stofnaði hann hljómsveitina Tíbet Tabú. Í þeirri sveit spilaði hann með Magnúsi Stefánssyni, sem síðar varð trommuleikari í Sálinni. Þrjú af lögum Tíbet Tabú voru á plötu Sálarinnar, “Hvar er draumurinn?”. Guðmundur var svo fenginn til að spila í Sálinni árið 1987, eftir að Tíbet Tabú hætti.

Friðrik Sturluson (bassi) ólst upp í Búðardal. Hann var ungur byrjaður í tónlistarbransanum og byrjaði á bassa þegar hann var unglingur. Hann hefur leikið með ýmsum hljómsveitum, m.a. Hendingu, Suðvestan Hvassviðri og Mao. Magnús Stefánsson, meðlimur í Mao fékk hann til að spila með í Sálinni árið 1988. Friðrik stundaði nám við Menntaskólann við Hamrahlíð og fór seinna í myndlistarskólann og útskrifaðist þaðan sem Grafískur hönnuður árið 1989.

Jens Hansson (saxófón/hljómborð) er Reykvíkingur en bjó í Mosfellsbæ þegar hann var var unglingur. Hann lék á saxófón með hljómsveitinni Lost. Faðir hans, Hans Jensson, spilaði líka á saxófón með Lúdósexettinum. Þegar Jens var 20 ára spilaði hann á tónleikum með Megasi, og var síðar í hljómsveitinni Das Kapital sem Bubbi Morthens stofnaði. Jens vann í tvö ár sem tónlistarkennari í Ólafsvík, þar sem hann lék á árshátíðum með Klakabandinu. Eftir kennsluna fór hann til Los Angeles í hljóðupptökunám og þaðan fór hann að vinna við hljóðupptökur í Hong Kong. Þegar hann kom heim aftur spilaði hann með hljómsveitinni Mannakorn og árið 1989 byrjaði hann í Sálinni.

Jóhann Hjörleifsson (trommur) spilaði á yngri árum með hljómsveitinni Trix á trommur og þótti hann mjög efnilegur. Hann hefur spilað margs konar tónlist, allt frá jazz og blús upp í flókin sinfóníuverk. Hann tók inntökupróf í Sálina árið 1990 en komst ekki að. En árið 1998 komst hann í hljómsveitina, þegar Birgir Baldursson sem varð fyrir valinu árið 1990 hætti.

Sálin gaf út sinn fyrsta disk árið 1988 og hét hann “Syngjandi sveittir”. Nú hefur hún gefið út 11 diska, sá nýjasti er “Vatnið”.

Heimasíða hljómsveitarinnar: http://www.salinhansjonsmins.is

Kv. upje