Gerði ritgerð um þessa bók í skólanum og ákvað að skella henni bara inn hérna :)


Sagan fjallar um Sölva Lind af ætt Ísfólksins og gerist á um það bil 10 árum. Sölvi er einn af hinum bannfærðu í ættinni, en það veit enginn því að það sést ekki á honum og hann vill halda því leyndu svo að hann geti notað hæfileika sína til ills, hann er myndarlegur með dökka lokka og dökk augu sem seinna verða svo áberandi gul. Hann hefur yfirnáttúrulega hæfileika, getur kallað til sín hluti og fólk. Hann fær allt sem hann vill ef hann óskar þess nógu heitt. Sölvi verður illgjarnari og kærulausari eftir því sem líður á söguna. Hann er mjög hefnigjarn og fégráðugur og er alveg sama þótt að hann drepi einn og einn mann bara vegna þess að það kemur honum vel að losna við hann eða ef honum finnst maðurinn vita of mikið. Jafnvel bara ef honum líkar ekki vel við hann. Sölvi notar líka yfirnáttúrulega hæfileika sína til að komast yfir konur. Svo barnar hann óvart eina konuna og eignast soninn Heiki, sem hann situr uppi með því að móðir Heikis dó af barnsförum. Heikir er líka bannfærður en ekki fallegur eins og Sölvi, lítur helst út eins og lítill djöfull með strítt svart hár,brennisteinsgul augu og hrikalega breiðar axlir sem eru ástæðan fyrir að móðir hans dó. Sölvi hatar Heiki og reynir að losa sig við hann, en alrúnin sem Sölvi fékk frá föður sínum áður en hann fór til Vínar, verndar Heiki fyrir Sölva og tilraunum hans til að drepa son sinn. En Sölvi hættir aldrei að reyna að leika á alrúnina og reynir margar mismunandi aðferðir til að drepa Heiki en allar mistakast þær. Sölvi lokar Heiki inn í búri þegar hann byrjar að labba og stingur hann með prjóni sér til skemmtunar. Persónurnar eru mjög trúverðugar og maður beinlínis elskar að hata Sölva og vorkennir Heiki svo mikið.
Sagan byrjar í Svíþjóð árið 1749 þar sem Sölvi elst upp hjá foreldrum sínum og systur. Þegar hann er tvítugur fer hann til Vínar með vini sínum, og fer að vinna sem ritari fyrir ræðismann, seinna vinnur hann svo í búð hjá klæðskera. Sölvi er í Vín í átta ár og lifir vel og hátt, fer í veislur og tælir konur. Þegar hann fær leið á Vín tekur hann alla peninga frá fyrirtækinu sem hann hefur unnið svo vel í og byggt upp, og skilur það eftir á barmi gjaldþrots. Hann ferðast til suðurs til að leita Þengils hins illa. Þetta ferðalag tekur hann ár og þá er hann kominn í smáþorp í Slóvakíu. Þar kynnist hann Elenu og ákveður að tæla hana án þess að nota galdra og þykist vera vinur hennar Einn daginn, þegar Sölvi var niðri í þorpi, fór Elena inn til hans með þvott og fann Heiki í búrinu. Hún trúði því varla að Sölvi, sem hún var orðin ástfangin af, geti gert barni þetta. Hún opnaði búrið en var ekki vis um hvort hún hefði gert rétt, því að kannski var veran í búrinu hættuleg. Sölvi ákveður þá að fara til Feneyja, fyrst að hann var búinn að losna við Heiki en mennirnir úr þorpinu elta hann og fengu menn úr næsta þorpi til að koma á móti Sölva. Sölvi er hengdur fyrir að vera sonur Satans en Heikir ólst síðan upp hjá Elenu og manninum hennar, Milosi.
Málefnið sem höfundur er að fást við er hvernig aðalpersónan þróast úr góðhjörtuðum dreng í mannníðing. Öll sagan er sögð frá sjónarhorni hins fagra Sölva sem finnst svo ósanngjarnt að hann þurfi að hugsa um ófreskjuna Heiki. Boðskapur sögunnar er sá að þótt þú sért ljótur geturðu verið góð manneskja og öfugt. Þetta er mjög spennandi saga sem fjallar um Ísfólksættina og hvernig þau reyna að losna undan bölvun sem forfaðir þeirra, Þengill hinn illi, lagði á þau.

Lokaorð.
Mér fannst þessi bók mjög góð vegna þess hvað persónurnar eru trúverðugar, þrátt fyrir galdra og yfirnáttúrulega hluti, og hvað maður tengist þeim vel og lifir sig inn í bókina. Það er líka mjög óvenjulegt að sagan sé sögð frá sjónarhorni vonda kallsins. Það er fallegur boðskapur í sögunni er og höfundurinn hefur örugglega hugsað mikið um söguna meðan hún skrifaði hana og bókin er gerð með tilliti til þess að þetta er bókaflokkur og það komu bækur á undan þessari og á eftir henni. Ég held að höfundurinn hafi líka skrifað bókina þannig að maður á að vorkenna Sölva smá en svo gjörsamlega fara að hata hann og vorkenna Heiki í staðinn. Mér fannst bókin mjög góð í alla staði, spennandi, fyndin af hluta til og smá rómantísk.