Margit Sandemo Margit Sandemo (með áherslu á a-ið í Sandemo!) er norskur rithöfundur. Hún hefur skrifað fjöldann allan af skáldsögum, eða um 150 titla. Frægustu og vinsælustu bækurnar sem hún hefur skrifað eru vafalaust bækurnar í bókaflokknum Sagan um Ísfólkið. Þær hafa selst víða í Evrópu, þar á meðal hér á Íslandi.

Margit Sandemo er fædd árið 1924, þann 23. apríl. Móðir hennar hét Grevinne Elsa Reuterskjöld og var af sænsku aðalsættinni Oxtensiarna af Korsholm og Wasa. Faðir hennar hét Anders Underdal og var norskur. Fyrst bjó fjölskyldan í Noregi en þegar foreldrar Sandemo skildu, þegar hún var 6 ára, flutti hún með móður sinni og 4 systkinum til Svíþjóðar. Margit uppgötvaði snemma að hún væri gædd yfirnáttúrulegum eiginleikum. Þar af leiðandi leið henni eins og hún væri ekki venjulegt barn. Fyrstu sýnina sá hún þegar hún var á 7. ári. Hún fékk þó hjálp við að takast á við það að vera skyggn og seinna lærði hún að lifa með þessum eiginleikum sínum. Árið 1946 giftist hún Asbjørn Sandemo og saman eignuðust þau sjö börn. Aðeins þrjú þeirra hafa náð fullorðinsaldri. Árið 1999 dó Asbjørn, eftir 54 ár í farsælu hjónabandi með Margit. Þá varð hún niðurbrotin af sorg, hélt að hún myndi aldrei getað lifað ein, án Asbjørns. Seinna fann hún það út að henni leið ágætlega í eigin félagsskap, og segir sjálf að kyrrðin sé hennar besti vinur.

Margit Sandemo byrjaði ekki að skrifa sögur fyrr en hún var um fertugt. Áður hafði hún unnið við margvísleg störf – en ekki líkað neitt þeirra. Hún vann m.a. við myndhöggvanir, leikarastörf og skrifstofustörf. Loks fann hún að ritstörf var það sem hentaði henni best. Það hlýtur að vera rétt því hún skrifar enn, orðin áttræð og fólk kann greinilega að meta verk hennar því nú er hún mest seldi rithöfundurinn í Noregi.

Aðaláhugamál Margit eru að skrifa sögur, en fyrir utan það segir hún sjálf að henni finnist gaman að leysa krossgátur og fara í rafting, eldfjallarannsóknir og gera fleiri spennandi hluti á Íslandi. Uppáhalds ritverk hennar er Hringadróttinssaga eftir J.R.R. Tolkien og finnska verkið Kulevala. Hún las verk Shakespears þegar hún var átta ára.

Margit trúir á hljálpara (no. Hjelperer), sem eru sennilega einhverskonar fylgjur eða árur. Hjálparinn hennar heitir Vergil. Hún vill ekki tilheyra kristnu kirkjunni því henni finnst að prestarnir ákveði hvað fólk eigi að trúa á og það líkar henni ekki. Stundum kemur fram í bókum hennar að hún trúir ekki á Guð, og líki ekki við kirkjunnar menn. Margit trúir líka á að hver og einn endurfæðist þegar hann deyr, sem líkist Karma í hindúasið. Sjálf telur hún að hún hafi lifað meira en hundrað líf. Hún trúir einnig að afturgöngur séu til. Samkvæmt heimildum hefur hún, í einni ferð sinni til Íslands, manað afturgöngu út úr ferðakofa.

Eins og áður hefur komið fram hefur Margit Sandemo skrifað fjölmargar bækur, og flestar þeirra fjalla um ástina. Einnig blandast inn í söguþræðina spenna, dulúð og mikill tilfinningahiti. Hún hefur samið bækur í 5 bókaseríur; Sagan um Ísfólkið, Galdrameistarinn, Sögnin um Ríki ljóssins, De svarte ridderne og Blålys. Auk þeirra hefur hún samið fjöldan allan af sjálfstæðum skáldsögum. Af þeim hafa aðeins nokkrar komið út á íslensku, en þær eru m.a. Ljósið á heiðinni (Lyset på heden), Úr viðjum einmanaleikans (Barn av ensomheten), Draugakastalinn, og Fjötrar falla. Svo hefur hún einnig samið eina trílógíu, sem heitir Historien om en fjelldal. Bækurnar þrjár nefnast Ørnens rike, Ravnenes dal og Tranenes fristed. Trílógían kom út í Noregi á árunum 1991 til 1996.

Margit Sandemo er ein af uppáhalds rithöfundum mínum. Ástæðan er sú að hún skrifar vel, segir vel frá, skapar lifandi persónur, söguþráðurinn einkennist af rómantík, spennu, dularfullum atburðum og húmor, og sögur hennar gerast oftast fyrir 200 árum eða meira. Bækurnar einkennast líka af því, að dýr eru oft mikilvæg í sögunni, Margit er greinilega mikill dýravinur.
Ég uppgötvaði Margit Sandemo fyrst þegar ég las fyrstu bókina í Ísfólkinu, Álagafjötrar. Ég hafði tekið eftir langri röð af svipuðum bókum á skólabókasafninu í grunnskólanum og einn daginn tók ég fyrstu bókina, las aftan á kápuna og ákvað að lesa hana. Bókin var ekki eins og ég hafði haldið, en ég varð ekki fyrir vonbrigðum. Ég kláraði bókina á mettíma og síðan þá hef ég leitað uppi fleiri bækur eftir þennan höfund, en því miður bara fundið fáar.

Og svo eitt að lokum:
“Ég skrifa ævintýri fyrir fullorðna,” segir Margit Sandemo.
~~~~~
Heimildir: http://home.c2i.net/ehaehre/katta/
http://home.no.net/bernt/sandemo/
Love is patient, love is kind. It does not envy, it does not boast, it is not proud . . . Love never fails.