Ég ætla að vísu ekki að alhæfa neitt, en ég ætla að segja frá minni reynslu, og áhrifanna sem bækurnar höfðu á mig.
Ég get ekki sagt að ég hafi nokkurn tíman verið mjög trúuð. En ég hef alltaf haft áhuga á “hinu yfirnáttúrulega”.
Ég las Ísfólkið fyrst þegar ég var þrettán, það hafði kannski ekki mestu áhrifin þá, enda var ég ung. En eins og flestir sem detta inn í þetta hikaði ég ekki við að lesa aftur. En eftir því sem ég varð eldri, þeim mun meira fór ég að hugsa um hluti eins og hvernig trúarbrögð spila inn í söguna.
Hinum bannfærðu leið fæstum vel í kirkju eins og þið flest vitið. Þarna finnst mér fyrst votta fyrir þversögn við biblíuna. Þar er alltaf talað um að guðs ríki sé opið öllum sem iðrast synda sinna og kirkjan á að vera opin öllum, hún er hús guðs og þar ætti hverjum sem vill að geta liðið vel. Það er tekið fram í síðustu eða næst síðustu bókinni að þau voru útskúfuð úr kirkjum einfaldlega vegna þess að þau eru af þessari ætt og fengu “bölvunina” í vöggugjöf. Engu skipti hvort þau notuðu mátt sinn til góðs eða ills.
Saga Lúsífers vakti mig til mikillar umhugsunar. Ég þekkti ekki söguna fyrir, en taldi mig skilja nokkurn veginn frásögn biblíunnar og kirkjunnar manna út frá frásögn Lúsífers. Það var þarna sem ég fór að velta fyrir mér öðrum biblíusögum og fór að mynda mér skoðun á því hvort guð væri virkilega eins réttlátur og talað er um. Sem dæmi má nefna söguna um Móse og frelsun gyðinga úr ánauð Egypta. Ég neita því ekki að meðferð Egypta á gyðingum var slæm, óréttlát. En til að sannfæra Egypta um að sleppa gyðingum, drap guð alla frumburði þeirra. Fyrir mér er það ekkert skárra eða mannúðlegra en meðferð Egypta á þrælum sínum.
En svo ég haldi mig nú við Ísfólkið, þá má líka nefna stríðin sem koma fyrir sögu í bókunum. Ég efa að ég sé sú eina sem hef pælt í þessu, en það hefur gerst oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að stríð eru háð milli tveggja eða fleiri kristinna þjóða. Krsitnir menn, ég tala nú ekki um á þessum tíma, hafa þann sið að biðja til guðs fyrir stríð. Báðar þjóðir biðja sama guðinn að vera með þeim og hjálpa þeim að sigrast á óvininum. Varla getur hann staðið með báðum. Þetta er að vísu hlutur sem ég var farin að hugsa um löngu áður en ég las Ísfólkið, en það passaði samt ágætlega inn í umræðuna.
Eitt af því sem hafði samt mest áhrif á mig var þegar Lúsífer ætlaði að taka völdin þar sem honum fannst guð ekki vera að standa sig. Ef ég man rétt var það Mikael erkiengill sem birtist og þeir Lúsífer ræddu saman. Lúsífer skammaðist út í það að Ísfólkið, þetta góða fólk hafði verið útskúfað úr kirkjum, á meðan þeir létu Þengil hinn illa, eina virkilega illmennið í sögunni, afskiptalausan. Svar Mikaels var að Þengill og hans “þjónar” höfðu séð til þess að fleiri sálir gengu inn í ríki guðs og þess vegna sáu þeir ekki ástæðu til að skipta sér af honum.
Ég get ekki sagt að ég sé trúuð núna. Ekki að ég hafi neitt á móti Kristinni trú. Ég virði hana líkt og öll önnur trúarbrögð. En ég trúi ekki sjálf. Ég mundi ekki segja að það væri eingöngu Ísfólkinu að kenna eða þakka, ég mundi frekar segja að það hafi opnað augu mín. Ég túlka biblíuna og aðrar trúartengdar sögur á annan hátt.

Vildi bara deila þessu með ykkur, að mínu mati eru bestu bækurnar þær sem annað hvort hafa tilfinningaleg áhrif á mann, eða vekja mann til umhugsunar um hluti sem maður hefði kannski aldrei pælt í annars. Ísfólkið gerði bæði í mínum huga.
Kveðja,