Eftir gríðarlegar vinsældir Doom 3 leiksins eru framleiðendur Universal búnir að gefa grænt ljós á samnefnda kvikmynd í fullri lengd. Handrit er um þessar mundir í vinnslu og aðstandendur eru vel sannfærðir um að þeim miði vel og myndin fari fljótt í framleiðslu.
Líkt og með Alien vs. Predator (sem einnig er byggð á tölvuleik - eins og flestir vita), þá er það búið að taka dágóðan tíma fyrir Doom til að fá möguleika á bíósamning. Í gegnum árin hafa verið gerðar fjölmargar tilraunir til þess að festa þennan efnivið á filmu en aldrei voru framleiðendur nógu ánægðir með handritaskrifin og þóttu mörg þeirra fráleit.

Líklega mun ID software (sem standa á bakvið Doom) hafa einhverja stjórn svo að óhætt er að segja að myndin muni ekki fara í gegnum sama klippingaferli og AvP.
Myndin verður þó ekki einungis byggð sérstaklega á þriðja leiknum né hinum leikjunum, heldur mun hún fókusa mun meira á ‘'Doom alheiminn,’' og þar af leiðandi mun söguþráðurinn fá tækifæri til að koma jafnvel hörðustu aðdáendum fyrirbærisins á óvart.

Óvitað er um útgáfudag myndarinnar eða eitthvað slíkt ennþá, enda framleiðslan bara á upphafsstigi, en það kemur allt í ljós fyrr eða síðar.

Tekið af www.kvikmyndir.is
—————————-
Vona að þetta klúðrist ekki eins og margar myndir sem gerðar eru eftir tölvuleikjum.