Þar sem Euro2000 er nýafstaðið þá er ekki að sökum að spyrja; allar húsmæður í vesturbænum eru brjálaðar yfir því hversu mikið var sýnt frá mótinu.  Mennirnir þeirra hafa greinilega ekki staðið sig í að þrífa meðan leikirnir voru í sjónvarpinu en það virðist einmitt vera lögbundinn tiltektartími hjá íslensku kvenfólki.
Af hverju er ég að blaðra um fótbolta í grein um Quake?  Jú, fótbolti er íþrótt og að sumra mati er Quake það líka.  Ég man reyndar ekki hvernig skilgreining á íþrótt er en eitthvað fjallar skilgreiningin um æfingu og keppni í einhverju sem reynir á andlega og líkamlega getu einstaklinga.  Skák er flokkað sem íþrótt og ekki reynir sú íþrótt mikið á líkamlega æfingu svo afhverju ekki Quake?
Bæði er sýnt frá skák og fótbolta í íslensku sjónvarpi en ennþá hefur lítið sést frá Quake.  Fjöldi manns á Íslandi stundar þessa íþrótt/áhugamál og haldnar hafa verið fjölmargar keppnir.  Ísland á landslið í fótbolta, skák og meira segja á Ísland (óopinbert) landslið í Quake.  Meira er samt rætt um landsliðið í fótbolta, þar sem hátindur liðsins var að gera jafntefli við heimsmeistara Frakka.  Landslið Íslands í Quake hefur hins vegar gert góða hluti og eru liðsmenn þess í heimsklassa.
Þá er bara spurningin, hvenær mun einhver íslensk sjónvarpsstöð átta sig á gæðum og skemmtanagildi íslenskra Quake-keppna og ríða á vaðið?  Skjár1 hefur verið dugleg(ur) við að senda út óhefðbundið sjónvarpsefni og ég veðja því á að Skjár1 verði fyrsta íslenska stöðin til að sjónvarpa Quake.
Þá fá íslenskir karlmenn eina afsökun í viðbót til að sleppa við þrif á heimilum.
                
              
              
              
               
        








