Steini Fær Æxli

Jæja
Eftir að hafa velt þessu fyrir mér lengi þá fannst mér best að byrja þetta á “jæja”. Ég heiti Steini og á heima á Akureyri og er höfundur og miðpunktur þessarar sögu sem byrjar í lok desember árið 2001, mánuði áður en ég varð 24ára og endar hún 2003, útaf því að ég get bara munað fortíð. Atburðarásin er öll eins sönn og ég man hana.
Bara til að láta þá vita sem eru að spá í hvort þetta sé ein af mörgum bókum um Steina og að þið séuð að missa af miklu með því að vera ekki búin að lesa bækur eins og “Steini Fæðist” eða “Steini Fær Bringuhár” þá ætla ég að segja þeim að þetta er mín fyrsta bók.



1. Kafli : Lífið getur verið mjög gott

Jæja þá eru jólin búin og árið 2002 nálgast og lífið leikur við mig. Þannig er að ég er í vinnu sem ég hef ekki gaman af, en fólkið sem vinnur með mér eru meira og minna snillingar og þar á meðal er stúlka sem heitir Linda og var búin að næla í mig, við vorum mikið saman sem var mikið gaman. Það var reyndar eitt sem ég var ekki alveg gríðarlega ánægður með og það voru svimaköstinn mín, sem koma handbolta ekkert við. Að lýsa þessum svimaköstum er ekkert spaug, en hér kemur tilraun. Það kannast allir við að standa of hratt upp, svima aðeins og þurfa smá stund til að átta sig á hvar þú stendur, já þetta er ekkert líkt því! Þetta er meira eins og að vera með risa hjálm yfir öllum hausnum og standa of hratt upp á tunglinu og að tveir risar komi og annar berji sleggju í hjálminn þinn og hinn skvetti ísköldu vatni á þig þar sem þú svífur um þyngdarlaus. Ekki það að ég viti hvernig manni á að líða þegar það gerist, annars væri þessi bók ekki um mig heldur vondu risana á tunglinu. Jæja þá eru allir komnir með það á hreint hvernig þessi köst eru, þá get ég haldið áfram.
Ég var búinn að ákveða að salta þetta fram yfir áramót fyrst ég gat oftast haldið áfram að gera það sem ég var að gera á meðan þessi köst stóðu yfir sem var svona einu sini til þrisvar á dag, það virtist ekkert vera að mér annað nema þetta venjulega sem stendur af mörgum hlutum, en til að vera ekki að keppa við símaskár frá austurlöndum með þessari bók ætla ég bara að nefna nokkur. Oft virðast orð ekki koma við í heilanum mínum áður en þau frussast út í allar áttir um allt milli himins og þarna lengst niðri og skiptir ekki hvort ég sé að tala um eitthvað mjög heitt málefni eða bara að tala um eitthvað smá mál, til dæmis hef ég haft langar ræður og náð að móðga suma útaf einhverju svo ómerkilegu eins og að hnerra. Svo á ég það til að hnerra alveg svakalega og oft í röð á stuttum tíma, metið mitt er 16 og er ég þá ekki að tala um þessi litlu sætu “tjú,tjú,tjú” sem sumir, sérstaklega stelpur koma með, nei ég er að tala um alvöru hnerra sem alveg uppúr þurru byrja alveg neðst í maganum, hlaða í sig orku á leiðinni upp og æðir síðan útum öll göt á hausnum í einni sprengingu af slefi, slími og hávaða, ef þetta mundi einhvertíman gerast í miklum mannfjölda og ég mundi ekki halda fyrir munninn þá væri fólk hlaupandi í allar áttir, renandi blautt og öskrandi úr skelfingu, en sem betur fer fyrir mannkynið kann ég mannasiði.Svo naga ég reyndar líka á mér neglurnar og hef ég ekkert meira að segja um það.
Áramótin voru alveg ný reynsla hjá mér í þetta skiptið þar sem að ég var nú með kærustu sem var að koma heim til mömmu í fyrsta skipti til að borða með fjölskyldunni, einhvern stóran fugl sem er víst mjög góður fyrir beinin. Allt fór eins og það átti að fara og spjallið eftir matinn var mjög skemmtilegt, sérstaklega afa að þakka, sem ég er sannfærður um að hafi komið húmor inní fjölskylduna, og Linda var mér sammála eftir að hún heyrði að rúmfötin sem hann var að versla þegar við hittum hann síðast, voru bara alls ekki nógu góð, hann sagði að hann ætlaði að skila þeim því að síðan hann setti þau á hafi hann bara verið að dreyma einhverja vitleysu, um leið sprakk öll fjölskyldan úr hlátri og hann afi sat með stórt glott á sér.
Smá ógleði var nú farin að fylgja svimaköstunum öðruhverju sem var ekki gott hélt ég, en ég er ekki læknir þannig að hvað veit ég hvað er gott og hvað er alls ekki gott, og hver getur sagt eitthvað á móti því að ég sé bara undir of miklu álagi, sértaklega útaf því hvað lífið var búið að vera alltof alltof gott og allt virtist bara vera að fara mína leið, ég var búinn að segja upp vinnunni og var kominn á tímabundinn samning í gömlu vinnunni þar sem ég var búinn að vinna allt í allt í um 7 ár þannig að launin mín hækkuðu þokkalega og var ég mjög sáttur. En eitt kvöldið gerðist það, ég og Linda vorum að leika okkur eins og pör vilja jú gera, og var ég eins hamingjusamur og karlmaður verður, en þá kom alveg svakalegt svimakast og ég vissi ekki hvort ég var að koma eða fara, og þetta kast var með auka skjálfta á eftir sem ég bara var ekki að ráða við, og skjálfandi í fanginu á Lindu sá ég að þetta voru engin svimaköst útaf einhverri auka pressu, þetta var eitthvað annað.




2. Kafli : Lífið getur versnað mjög hratt

Jæja það var víst ekkert hægt að salta þetta lengur, því ef ég mundi gera það þá væri bara salt út um allt, þannig að nú er ég búinn að fara til læknis og hann komst að þeirri niðurstöðu að ég ætti frekar að fara
til annars læknis sem væri miklu betri í lækningum heldur en hann, og var ég því að fara til hans núna.
Orðið taugasérfræðingur er alveg svakalega langt orð og þú færð líklega gríðarlega mikið af stigum fyrir það í “Scrabble” orðapúsl leiknum, og þessi læknir var einmitt með þennan titil, mig grunaði strax að þetta væri einhver sem ég mundi þurfa að hlusta á, því þetta er ekki titill sem þú færð eftir nokkrar vikur í kvöldskóla það var nokkuð ljóst, því eftir að ég fór þá var hann búinn að panta tíma fyrir mig í segulóm myndatöku sem ég hafði ekki hugmynd um hvað var og hann var reyndar líka komin með athyglisverða útskýringu á þessum svimum mínum líka.
Já þessi lækningamaður virtist vera með þetta allt á hreinu því nú var ég á leiðinni til Reykjavíkur með eitt orð í hausnum “geimverur”, reyndar voru þau tvö þessi blessuðu orð en ég kem að seinna orðinu eftir smá útskýringu á því fyrra. Ég hef nefnilega alveg gríðarlega gaman af kvikmyndum og þá sérstaklega vísindaskáldsögum og mér fannst ég alveg passa í eina, því ég sá þessa segulóm myndatöku fyrir mér einhvern veginn svona:
Hjúkrunarkona og tæknimaður eru að byrja að taka segulóm myndir af mér, en þá gerist eitthvað, konan öskrar “einhverskonar tæki er í hausnum á honum sem er að stækka, fljótur tæknimaður slökktu á segulómtækinu, annars er útum okkur öll!”, ég vissi auðvitað að það væri mjög ólíklegt, en svona hugsa ég þegar ég hef ekkert annað að gera eins og t,d í löngum bílferðum.
Svo var það hitt orðið sem ég var með í hausnum, en ég gat bara ekki hugsað neitt skemmtilega vísindalegt út úr því, “ flogaveiki”, ekki það að ég hafa eitthvað reynt það því ég hafði verið með þetta orð mikið í hausnum eftir að lækningamaðurinn sagði að þessi svimaköst minntu mjög mikið á flogaköst, þetta var orð sem mér fannst ekkert gaman að hugsa um.
Jæja þá var bara komið að því, ég var nú á leiðinni í myndatökuna miklu en nú var ég bara rólegur og allur efi var algjörlega 100% farinn úr hausnum á mér,eða var hann það?
Jæja nú var ég bara staddur á biðstofu að bíða eftir að komast í þetta segulóm tæki, og já ég var að bíða því þetta heitir nú einusinni biðstofa, ekki mikill sjens á því að einhver segi við mann “farðu bara beint inn” og þess vegna var ég nú að bíða með mömmu á biðstofunni og var bara nokkuð sáttur við að sjá engar stórar geimverur eða neinn hlaupandi um segjandi öllum að kasta sér niður. Eftir að hafa beðið í smá stund var komið að mér að fara inn, þar tók á móti mér hjúkka sem sagði mér að taka af mér beltið og setja það í einhvern smá kassa ásamt lyklum og einhverju sem ég væri með í vasanum sem gæti verið járn í, ég gerði það. Þegar ég var að fara úr skónum spurði hún hvort ég hefði einhverntímann brotnað eða eitthvað svoleiðis og væri með járn eftir það eða bara að ég væri með járn einhverstaðar í líkamanum, ég svaraði “nei en ég fékk mér cheerios í morgun mat og það er nú járnrík máltið” henni fannst þetta bara ekkert fyndið og mér leyst alls ekkert á það því mér fannst þetta alveg ótrúlega sniðugt og ég bara skildi ekkert í því afhverju henni fannst þetta ekki einusini broslegt, kannski hafði hún einhverntímann séð gaur fara í þetta tæki og séð síðan að hann hafi gleymt að segja frá einhverri aðgerð sem hafi valdið því að hún hafi verið að ná í hnéskeljarnar hans af loftinu.
En þá var komið að mér, nú var ég kominn með eyrnatappa og alveg fáránlega húfu þar sem ég lá á borði fyrir framan stærstu myndavél sem ég hafði nokkurn tímann séð og var búið að setja lítið borð yfir hausinn á mér með bakspegli þannig að ég gat séð hvað lappirnar á mér eru alltof stórar.
“Jæja Steingrímur þá byrjum við, fyrsta myndin tekur 12mín” ég var rétt farinn að spá í hvað það væri langur tími miðað við stærðina á þessar myndavél þegar hún byrjaði að mynda. Skyndilega sá ég hvað ég var að gera með eyrnatappa, því þó að mér hafi fundist þeir gera nánast ekkert þá mundi hausinn á mér sennilega springa án þeirra, líka sá ég hvað þessi bakspegill var að gera beint fyrir framan augun á mér, hann var ekki bara til að sjá hvort lappinar væru enn fastar við restina á mér, heldur líka til að sjá hvort restin af heiminum væri ennþá þarna.


Muna:
visa, maður setur allt á visa
muna að biðja robert downey jr afsökunar
“víbratorinn” hennar Maríu
Begnus..Get busy living, or get busy dying.