Ég og kærasta mín eigum 6 mánaða Border Collie tík, sem við erum í vandræðum með. Við fengum hana of unga (2 vikum of ung), því að eigandinn vildi ekki hafa hvolpana lengur út af tíkinni sinni.

Við gefum henni næga athygli, hreyfingu og krefjandi verkefni, en samt getum við ekki litið af henni.
Þurfi hún að vera ein heima lengur en í hálftíma, þá verður hún brjáluð. Við skiljum eftir dót, bein, nóg af vatni og mat, en samt verður hún að eyðileggja eithvað. Um daginn þurftum við að fara frá henni í 2-3 klst og pössuðum okkur að taka allt sem hún gætilega mögulega eyðilagt í burtu. Hún tók sig þá til og nagaði rúmið okkar(stórt gat í hliðina). Ég veit að það væri ekkert mál að henda henni inn á baðherbergi, en það myndi ekki leysa stærsta vandamálið. Hvernig getum við látið henni líða betur einni heima?

Síðan er annað vandamál. Hún hefur minnsta hjarta, sem ég hef kynnst á ævinni. Í göngutúrum sveigir hún langt frá öllum manneskjum, reynir að hlaupa frá hundum og leggst á bakið með fætur í sundur komi þeir of nálægt. Það er alls ekki einungis eldri hundar, heldur hefur hún lúffað fyrir hvolpi sem var 2 mánaða. Við höfum reynt að kynna hana fyrir sem flestum manneskjum og hundum, en það virðist ekki virka. Hvað getum við gert til þess að herða hana?

Þriðja og síðasta vandamálið er hversu háð hún er okkur. Ég vissi það frá byrjun að Border Collie væru óvenjulega háðir eigendum sínum, en að annað hvort okkar þurfi að vera hjá henni 24/7 er ekki allveg það sem ég átti von á. Við þurfum að hafa hana í pössun í 2 vikur og mér er eiginlega farið að kvíða svolítið fyrir því. Við höfum fengið pössun fyrir hana yfir nótt hjá vinafólki og það treystir sér ekki til þess að passa hana aftur.

Sem sagt 3 vandamál, sem tengjast öll því hversu afskaplega hrædd og lítil í sér hún er. Hvað getum við gert?