Hundurinn minn, Sesar, varð 12 ára í síðasta mánuði. Og alla sína háu herrans tíð hefur hann búið á Álftanesi, einn í sínu konungsríki. Fyrir ca. ári kom ný byggð fyrir neðan húsið hans, í brekku sem hann ÁTTI og var vanur að hlaupa og leika sér í. Nú snemma á árinu fengu ung hjón í nýju húsunum sér hund. En sem betur fer var það tík. Sesar var ekki hrifinn af henni sem hvolpur, en þau lifa í sátt núna, enda er hún um það bil að fara að hefja sitt fyrsta lóðerý núna. En núna er farið að reisa enn eitt húsið á svæðinu hans Sesar. Og það sem verra er, ný eigandinn tilvonandi er með hund, og það ekkert smá smíði. Það er svartur Nýfundnalandshundur. Hann er svo stór að ég er viss um að Sesar gæti gengið undir hann. Og það sem ennþá verra er, hann er alltaf við húsið, LAUS, allan daginn, alla daga, á meðan bygginagavinnunni stendur yfir. Og það kemur auðvitað fyrir að hann kemur að húsinu hans Sesars og þá rís sko kamburinn á baki hans, hann verður alveg trítilóður (enda mjög slagsmálagjarn við aðra karlkyns hunda) og vill út og slátra Nero gamla! Auðvitað reynum við að aftra honum, en það getur verið erfitt t.d. þegar við ætlum út að ganga með hann. Hann hefur hingað til fengið að valsa um frjál í labbitúrum og það hefur verið í lagi hingað til, en nú verður hann alltaf að vera í bandi (svakaleg móðgun auðvitað) en á meðan er Nero alltaf laus og getur komið að okkur í göngutúrum hvenær sem hann vill. Enda hafa þeir þegar lent í nokkrum slagsmálum og oft getur verið erfitt að koma í veg fyrir þau. Til dæmis, um daginn, fór 8 ára gamall drengur út með Sesar að labba í bandi, en náði auðvitað ekki að halda aftur að honum þegar Nero birtist í öllu sínu veldi og varð úr því slagur.
Mér finnst þetta eiginlega svolítið ótillitsamt af hálfu eigandans, að hafa hundinn alltaf lausan þegar hann veit af Sesari og þeir hafi lent í slagsmálum oftar en einu sinni.

En þetta var nú bara ein sagan af honum Sesari mínum…
- www.dobermann.name -