Ég veit þetta er langt en við að svara og lesa svörin við korkinum (ekki greininni) “hundaleyfi” rifjaðist þessi saga upp.

Ég vil taka fram að ég er ekki algjör katta hatari eða neitt svoleiðis en þið skiljið kannski af hverju ég held frekar upp á hunda. Ég hef ekkert á móti inniköttum. Fólk á bara að passa kettina sína eins vel og við hundaeigendur gerum flestir :)

Fyrstu árin sem við bjuggum í nýja einbýlishúsinu okkar áttu fuglarnir alltaf hreiður í sama trénu úti í garði. Þetta höfðu þeir gert jafnvel áður en við fluttum þangað. Alltaf sama tréð, alveg upp við einn gluggann okkar. Það var árviss viðburður að fylgjast með fuglunum tína strá, byggja hreiður og koma sér upp ungum. Þeir voru meira að segja svo gæfir að þeir tipluðu um í kring um okkur á meðan við vorum að vinna í garðinum, óhræddir.
En eitt árið varð kattarsprengja ef svo má að orði komast, æ fleiri í götunni fengu sér ketti og var ekki friður í garðinum fyrir þeim.
Við skiptum um sandinn í sandkassanum oft og þurftum að endurnýja lokið vegna ágangs katta.

Eitt skiptið þurftum við bókstaflega að bjarga ungunum, kötturinn hrinti hreiðrinu (í heilu lagi) úr trénu og ungarnir duttu úr. Við komum að þeim, hárlausum liggjandi á víð og dreif, kötturinn hafði látið sér nægja að taka einn. Við björguðum þeim, hlýjuðum þeim ofaná hitapoka, festum upp hreiðrið og skiluðum ungunum í hreiðrið.
Við vissum að kannski vildi mamman ekki þá því það var búið að snerta þá (ókunnug lykt af þeim núna) og fylgdumst því vel með þegar við höfðum skilað þeim aftur.
Kraftaverki líkast tók mamman við ungunum! Vá, það var frábær tilfinning að hafa bjargað lífi 6 lítilla lífvera. Við fylgdumst með þeim stækka og svo fóru þeir einn af öðrum að reyna litlu vængina sína. Það var alveg frábært að fylgjast með ungunum okkar, þeir voru svo sætir J Svo vöknum við einn morguninn og litum út um gluggann. Grasið var þakið fiðri. Köttur hafði náð einum unganna. Dagana á eftir fundum við æ fleiri líkamsleifar á víð og dreif og var sárt að sjá litlu sundurtættu líkamana liggjandi þarna. Þeir voru allir drepnir…eftir allt sem við höfðum gert fyrir þá!

Þá fékk ég nóg! Köttur skyldi sko ekki stíga fæti inn í minn garð aftur. En hundurinn minn varð veikur og missti sjónina að miklum hluta og gat þvi ekki rekið kettina úr garðinum, kettirnir urðu æ ágengari. Ooo, ég vildi að ég ætti terrier hund núna!
Í kring um okkur bjuggu 3 kettir og ég hafði ekki tölu á fjöldanum í götunni.

Árin eftir reyndu fuglarnir að gera sér hreiður en alltaf voru ungarnir drepnir, og svo í fyrra sumar og sumarið á undan var ekkert hreiður gert. Það var svo leiðinlegt, eigendur kattanna gerðu sér ekki grein fyrir því hvaða skaða kettirnir valda. Ef ekki væri fyrir netin í flestum gluggunum í húsinu okkar væru þeir pottþétt búnir að fara þar inn (og einn fjölskyldu meðlimur okkar hefur rosalegt kattarofnæmi).

En núna get ég tekið gleði mína á ný því nú eru eiginlega engir kettir í götunni (ýmist búið að gefa/lóga/keyra á/fluttir) og 2 hundar búa við hliðina á mér, samtals 4 í götunni og ég bíð bara glöð eftir sumrinu og vona að fuglarnnir reyni einu sinni enn. :)

Boðskapur: Það eru ekki bara hundar sem valda tjóni, tjónið sem kettir valda er meira en margan grunar, gæludýra eigendur eiga að passa upp á dýrin sín og í lokin hafði fólk gefist upp á köttunum og segir það margt um hugarfar fólks sem elur útigangsketti.