Mig langar til að deila með ykkur hugleiðingum mínum um það að eignast loksins hund.
Mig er búið að langa í hund í 20 ár eða síðan ég fæddist. Mamma mín hinsvegar er ekki hrifin af dýrahaldi almennt þannig að ég fékk alltaf þvert nei ef ég spurði. Ég þurfti að láta mér annara manna hunda nægja og er minningin um Kollu, íslenskan fjárhund, sterkust. Hún var yndisleg tík, gáfuð og falleg og gerði aldrei flugu mein.
Ég horfði alltaf öfundaraugum á fólk með hunda og þráði að eignast einn sjálf.
Svo núna í júlí flutti ég að heiman og viti menn, ég fór strax að leita mér að hundi. Eins og gengur og gerist var auðvitað ekkert framboð akkúrat þegar ég var að leita. Ég vildi helst fá gefins hund því ég átti ekki mikinn pening.
Svo fyrir hreina tilviljun rakst ég á heimasíðu Fagrahvamms ræktunar sem var með 7 íslenska hvolpa til sölu. Um leið og ég sá myndina af Sölku Völku var ekki aftur snúið, ég var búin að finna drauma hundinn. Ég pældi og pældi í marga daga hvernig ég gæti eignast hana og ákvað fyrir rest að selja PS2 tölvuna mína upp í hana.
Ég hringdi í ræktandann og fékk að skoða og beið svo spennt í viku eftir að fá hana afhenta. Ég gat varla sofið af spenningi.
12. ágúst rættist svo draumurinn loksins. Ég eignaðist yndislega litla tík sem ég endurskírði Týra (fannst það bara betra).
Týra er allt sem ég óskaði eftir og minnir mig oft ótrúlega á Kollu þegar hún situr og horfir gáfulegum augum út í loftið. Hún elskar mig og ég hana og ég veit fátt betra en að leika við hana og kúra með hana í fanginu. Við erum alltaf saman og ég sakna hennar ef ég skelli mér t.d. á djammið og hún mín.
Mamma sagði alltaf að ég myndi aldrei nenna að fara með hund út að labba og sinna honum en henni skjátlaðist sko. Ég skemmti mér konunglega við það.
Það er líka gaman að sjá að bæði pabbi og mamma hafa rosalega gaman að henni og sjá ábyggilega eftir að hafa ekki leyft mér að eignast hund fyrr.
En ég vona að allir sem langar í hund fái tækifæri á því að kynnast því hvernig þetta er. Í dag gæti ég ekki hugsað mér að vera án þess að eiga hund og langar helst í fleiri. ;)