Jæja, mér datt í hug að skrifa grein þar sem það var hvatt til þess :P

Ég á yndislegan hund sem heitir Loki, hann er blendingur af Catahoula Cur (http://en.wikipedia.org/wiki/Catahoula_Cur) og einhverju öðru, mögulega Australian Cattle dog. Hann hefur verið hjá okkur síðan í nóvember á síðasta ári. Hann hagar sér vel í húsinu, lætur vita þegar bankað er á hurðina, elskar að fara í bíltúr og finnst ekkert betra en að leika við okkur eigendurna í góða veðrinu hérna í Texas. Það sem ég er að reyna að segja er, ég þekki hann. Ég kann á hann. Það er auðvelt að búa með honum.

Fyrir þremur vikum tókum við í pössun lítinn Pit Bull hvolp, sirka sex/sjö mánaða. Hann er þvílíkur ljúflingur við menn og hunda, en það sem ég tók strax eftir er hvað hann er ólíkur Loka. Ég hef átt ótrúlega erfitt með að höndla PJ (hvolpinn) á annan hátt en ég fer með Loka. Ég er svo vön að hafa hund sem kann að setjast, liggja, koma og almennt haga sér, að ég þarf að minna mig á oft á dag að þessi hvolpur er EKKI Loki. Hann ólst upp úti, ekki inni í húsi og kann engar skipanir. Það sem ég hef lært eftir þessar þrjár vikur er hversu mikilvægt það er að fara með hvern hund sem einstakling. Það er svo oft sem fólk fær sér hvolp eða fullorðinn hund og býst við að það verði jafn auðvelt að eiga við nýja hundinn eins og gamla, en það er alls ekki þannig. Það er ósanngjarnt fyrir nýja hundinn og óraunhæft fyrir eigendurna.

PJ er auðvitað ennþá hvolpur, en hann er þessi týpa sem notar ýmsar (óþolandi) aðferðir til að róa sjálfan sig eða ná athygli. Loki gerir það ekki. PJ geltir, tætir, étur, og vælir til að líða betur eða fá athygli. Hann læðist inn í svefnherbergi og nær í sokk til að naga eða finnur eitthvað á gólfinu sem hann gleypir áður en maður nær til hans. Þegar hann er settur út, þá situr hann stundum og geltir sig hásan því að honum finnst það svo gaman. Ég hef mörgum sinnum þurft að taka skref til baka og draga andann svo að ég gargi ekki á greyið því að ég veit að hann er ekki að gera neitt af sér. Hann bara kann ekki húsreglurnar hjá okkur. Hann er gestur og það er mitt hlutverk að kenna honum með þolinmæði en ekki reiði.

Ég hef svo oft lesið sögur af fólki sem er alveg hissa á nýja hundinum sínum því að gamli hundurinn gerði aldrei hitt og þetta sem nýji gerir. Margir gera ráð fyrir að hundar séu allir meira og minna eins í persónuleika og hegðun, og ég sagði við sjálfa mig að ég myndi aldrei vera eins og þetta fólk. En ég hafði rangt fyrir mér. Ég hef staðið mig að því að skipa PJ að leggjast og þegar hann horfir á mig ruglaður í ríminu rennur upp fyrir mér að ég er ekki að tala við Loka.

Loki hefur aldrei verið mikið fyrir að naga eða tyggja á sokkum eða inniskóm, en PJ er algjör nagari. Sama hvað hann nær í, hann getur tuggið og nagað endalaust. Um daginn sat ég inni í stofu og heyrði ekkert í hvolpinum, fór að tékka á honum og kom að honum liggjandi ofaní ferðatöskunni minni nagandi á beltinu sem heldur fötunum saman. Það var svo fyndið að ég varð að taka mynd af honum. Þegar hann er böstaður svona þá gefur hann manni hvolpasvipinn fræga og maður getur ekki annað en bráðnað.

Ég held að tilgangurinn með þessari grein er að minna fólk á að hver hundur er einstakur. Það þýðir ekki að búast við því sama af einum hundi sem maður bjóst við af öðrum. Þótt að þú komir með hund inn á heimilið þitt þýðir ekki að hann kunni það sem þú vilt að hann kunni. Það er hlutverk okkar sem eigenda að kenna hundunum okkar, hverjum fyrir sig, að það gilda reglur á heimilinu og gefa hundinum tíma til að læra. Það sem við gerðum við PJ sem hefur gaman að því að stela sokkum, var að gefa honum ekki tækifæri á að ná í sokkana. Annaðhvort með að hafa hann í búri eða fylgjast með honum þegar hann ráfar um húsið. Gott er líka að hafa hundinn í taumi og fastann við sig inni. Ef hann nær sokki, þá skiptum við við hann á sokknum með einhverju gómsætu nammi og pössum okkur betur næst.

Annað sem ég hef lært af því að hafa PJ hjá mér er hvað Loki er auðveldur í umgengni :) Hann leitar til mín ef honum leiðist en fer ekki í ferðatöskuna mína. Ef hann vill klifra upp á mig og ég ýti honum burt þá fer hann og leggs annarsstaðar. PJ setur allan sinn kraft í að klifra upp á mig og er mun þrjóskari en Loki í að ná sínu fram. En það mikilvægasta sem ég hef lært er þolinmæði fyrir mismunandi hegðunum og persónuleikum hunda. Og að lokum þakka ég Loka á hverjum degi að vera hann sjálfur :D