Hundar eru flokksdýr. Einn ríkasti eiginleiki í eðli þeirra er að finna sér stað innan flokksins síns þar sem þeir vita hvar þeir standa. Þess vegna er mikilvægt að koma upp greinilegri virðingarröð um leið og nýr hvolpur/hundur kemur inná heimili. Hundur sem hefur ekki sterkan leiðtoga er neyddur til að taka við því hlutverki sjálfur og skapar það oft taugaveiklaðan og óstabílan hund.

Allt of oft láta eigindur alveg vera að koma á þessari mikilvægu virðingarröð og uppgötva skyndilega að hundurinn þeirra er stjórnlaus. Litli fjörugi hvolpurinn er allt í einu farinn að urra þegar komið er við matarskálina, eða þegar einhver vill setjast hjá honum upp í sófa. Þetta eru skýr merki um að hann vill ráða. Vel uppalinn hundur veit að hann má eingöngu kúra í sófanum þegar eigandinn leyfir og kippir sér ekki upp við að vera snertur þegar hann étur. Þessi vandamál koma oft upp þegar hundar nálgast kynþroskaskeið. Ég sá einu sinni dýralækni mæla með lyfjagjöf fyrir hund sem lét svona og mér hryllti við. Það er mjög auðvelt að koma í veg fyrir að þetta gerist ef fólk fer rétt að.

Góður leiðtogi er ekki frekur, æstur eða ósanngjarn. Hann stjórnar með ró en ákveðni. Hundar skynja skapferli okkar betur en margir halda. Ef þið fylgist með úlfahóp, þá sjáiði ekki alpha úlfinn ráðskast með hópinn sinn með ofbeldi, heldur tekur hann á málunum með staðfestu og sjálfsöryggi. Það er það sem hundurinn verður að skynja. Að hann er öruggur hjá þér. Þú veist hvað þú ert að gera og þú veist hvað þú vilt að hundurinn geri. Sama hvort það eru margir eða fáir í fjölskyldu, hundurinn verður alltaf að verða neðstur í virðingarröðinni.

Síðasta grein mín fjallaði um hvolpabit. Að leyfa þau ekki er fyrsta skrefið í að koma á virðingarröð. Annað skref er að hafa fullkomna stjórn yfir hvolpinum hvort sem þið eruð heima eða úti. Til að geta það er best að hafa alltaf ól og laaaangt band sem hvolpurinn dregur á eftir sér. Þá getiði alltaf náð honum ef hann fer í eitthvað sem má ekki. Og það venur hann á að ganga í bandi. Annað mikilvægt er búr. Að venja hvolp á búr getur tekið nokkra daga. Mikilvægt er að hleypa hvolpi ALDREI út þegar hann vælir. Það kennir honum að væla þangað til hann kemst út. Það getur tekið á að hlusta á hvolpavæl, en þegar þeir komast yfir það, verður búrið þeirra uppáhaldsstaður. Þangar geta þeir leitað til að sofa, hvíla sig og fá frið ef gestir koma. Góð hugmynd er að gefa hundum að borða í búrinu.

Strax frá byrjun skal kenna hvolpi að setjast áður en matur er settur niður og áður en hurð er opnuð á leið út. Leiðtoginn fer alltaf fyrst út og þetta skilja þeir mjög vel. Farið með hendurnar í matardiskinn á meðan hvolpurinn borðar til að láta hann venjast því og klappið honum smá þegar hann étur. Það að eigandinn sé í kringum matardiskinn á að vera sjálfsagt mál fyrir hvern hund. Aldrei leyfa hundi upp í sófa eða rúm, nema með ykkar leyfi. Hundar eru mjög territorískir og það gæti orðið vandamál seinna.

Það er margt sem þarf að huga að þegar koma á virðingarröð, og oft þarf eigandinn að læra meira en hundurinn. Þið eruð að spila út á eðli hundsins en ekki mannsins. Flokkshegðun er eitt mikilvægasta einkenni allra hunda og það skiptir ekki nokkru máli hver tegundin er. Chihuahua þarf jafnsterkan leiðtoga og Stóri dan.

Heimildir: www.leerburg.com