Þegar hvolpar bíta Flestir kannast við það að hvolpar bíta og glefsa í allt og alla þegar þeir koma fyrst inná heimili og getur þetta verið mjög hvimleið hegðun, en mikilvægt er að skilja af hverju þeir gera þetta. Hundar eru einfaldar skepnur. Þeir sjá heiminn í svörtu og hvítu (ekki að meina liti heldur lífið sjálf) og allt sem er á gráu svæði ruglar þá.

Strax eftir got byrja hvolpar að finna sinn sess í gotinu. Þeir skilja fljótt að það er goggunarröð í systkinahópnum, en allir hvolparnir vita líka að mamman er æðst. Hún lætur aldrei, aldrei valta yfir sig. Þeir læra af móðurinni hvernig hún agar þá til og nota það til að komast að því hvar þeir standa í gotinu. Eina leiðin til að komast að því er að bíta. Í leik eða alvöru, þá er bit og glefs eina leiðin fyrir hvolp til að komast að því hversu langt hann má ganga. Þegar systkinið gólar upp yfir sig veit hann að það er komið nóg, hann hefur náð yfirhöndinni. Þetta er það sem þeir læra og það eina sem þeir kunna. Þeirra eini samskiptarmáti, fyrir utan ýlfur og gelt. Það hafa allir séð hvernig tíkur glefsa í hvolpa til að siða þá, og þetta nota þeir til að finna sinn sess í lífinu.

Þegar komið er heim með átta vikna hvolp, er engin ástæða að halda annað en að hann noti þetta samskiptarform áfram. Hann er kominn inn á nýtt heimili, í nýjar aðstæður, en hann er ennþá hvolpur og vill komast að því hvar hann stendur í fjölskyldunni. Það tekur hvolp stundum nokkra daga að viðurkenna nýju fjölskylduna, en þegar það gerist má búast við beittum litlum tönnum við hvaða aðstæður sem er. Margir misskilja þessa hegðun og halda að hvolpurinn sé árásargjarn og illur í skapi og það eru stór mistök. Það er mjög auðvelt að gera hvolpinum grein fyrir að hann eigi ekki að haga sér svona. Eina sem þarf er ákveðni og fara alltaf sömu leið við þjálfunina. Ekki bregða út af, þá er komið inná gráa svæðið.

Það er tilgangslaust og ruglandi að slá hvolp á trýnið. Hann skilur það ekki. Ekki garga eða ýta í hann. Þegar hvolpurinn glefsar, takið þá fast í hnakkadrambið, þar sem mæðurnar bera hvolpana, ekki harkalega, bara svo þið náið athygli hans og segið ákveðnum rómi: HÆTTU ÞESSU, horfið í augu hvolpsins þangað til hann lúffar og verður undirleitur og kjassið hann svo eins og þið getið til að sýna að þið erfið þetta ekki við hann. Eftir allt, þá er átta vikna hvolpur bara smábarn. Ekki hrista eða hræða hann, verið bara ákveðin í að koma skilaboðum til hans. Ef þið standið við þetta í hvert sinn sem hann bítur, er hann fljótur að átta sig á að þetta er ekki ásættanleg hegðun og hann skilur að hann er ekki æðstur í nýju fjölskyldunni sinni.