Hrafnhildur Pálmadóttir, húsfreyja í Árholti í Vestur-Húnavatnssýslu, gerði sér lítið fyrir á dögunum, ók heim í hlað hjá nágrönnum sínum í Neðra-Holti og hellti þar úr rauðri málningarfötu yfir hund sem þar var og býr.
Brunað til Reykjavíkur
“Við hjónin vorum ekki heima þegar þetta var en ef konan átti eitthvað sökótt við okkur hefði hún átt að hella málningunni yfir okkur,” sagði Sigfús Heiðar Jóhannsson í Efra-Holti sem kom að labradorhundi sínum alrauðum og undrandi. Greip hann til þess ráðs að aka með hundinn alla leið til Reykjavíkur á fund við hundasnyrti á Kleppsvegi. Er það 244 kílómetra leið.


Hundurinn og húsbóndi hans
“Þetta var gert af ráðnum hug. Konan hefur áður hótað hundinum okkar og haft á orði að næst myndi hún skjóta hann,” sagði Sigfús í Neðra-Holti þegar hann kom með hundinn til Reykjavíkur. Þar tók Sóley Möller, sem rekur Hundasnyrtistofuna á Kleppsvegi 150, á móti þeim. Báðir voru dreyrrauðir; Sigfús af bræði og hundurinn af málningu: “Það er alveg skelfilegt að sjá dýrið. Ég skil ekki að nokkur geti fengið af sér að gera dýri svona nokkuð,” sagði Sólveig á Hundasnyrtistofunni sem tók þegar til óspilltra málanna við að hreinsa hundinn.

Pissaði í skóinn
Deilurnar á milli húsfreyjunnar í Árholti og nágranna hennar í Neðra-Holti hafa staðið um skeið en aðeins 300 metrar eru á milli bæjanna. Bæirnir standa rétt sunnan við Blönduós.

“Ég viðurkenni að hafa hellt málningu yfir hundinn enda var ég alveg búin að fá nóg af honum,” sagði Hrafnhildur í Árholti sem vart hefur lifað óttalausan dag eftir að nágrannar hennar fengu sér labradorhundinn. “Hundurinn var alltaf að flækjast hér í kring og hafði sérstakt lag á að smeygja sér inn í forstofuna til okkar. Þar pissaði hann í skóna okkar, eins og það er nú skemmtilegt. Þá fór hann í hænsnakofann og át eggin okkar. Og bílskúrinn þurftum við að binda aftur til að halda hundinum frá.”

Daginn sem Hrafnhildur hellti rauðu málningunni yfir hundinn var hann nýbúinn að pissa í skóna hennar í forstofunni heima. Hún segist hafa orðið æf, rokið út í bílskúr, náð þar í málningardós og brunað upp að Neðra-Holti þar sem hundurinn lék sér í garðinum. Enginn var heima utan barnapía sem trúði vart eigin augum þegar húsfreyjan í Árholti tæmdi úr málningardósinni yfir hundinn. Heimilisfaðirinn var þá við vinnu sína á Blönduósi en þar ekur hann sjúkrabíl. Hann segir Hrafnhildi alþekkta gribbu á svæðinu en Hrafnhildur svarar fyrir sig: “Sigfús er ágætur en konan hans er leiðinleg.”

Sögulok
Sigfús í Neðra-Holti hefur kært Hrafnhildi til lögreglunnar fyrir að hella málningu yfir hundinn sinn og Hrafnhildur hefur kært hann á móti fyrir að gæta dýrsins ekki nógu vel. Hrafnhildur segist hafa kynnt sér það hjá yfirvöldum að eigendur hunda í sveit skuli gæta þeirra sem í þéttbýli væri. Sigfús stendur á móti fastur á sínu að ekki eigi að hella málningu yfir hunda þó svo viðkomandi sé illa við þá. Málið er í rannsókn.
Kv. EstHer