Ég er ekki hundaeigandi sjálfur en hef alltaf haft mjög gaman af þessum ferfættu vinum okkar. Það sem ég hef ekki haft jafngaman af er allur hundaskíturinn sem hefur svo að segja dúkalagt götur bæjarins. En nú er það af sem áður var.

Fyrir svona tveimur árum síðan þurfti maður alltaf að horfa niður á gangstétt en ekki beint fram fyrir sig þegar maður fékk sér göngutúr í Reykjavík. Ef maður álpaðist til að horfa ekki á gangstéttina var það bókað mál að maður steig í að minnsta kosti þrjá hundakúka á meðalgöngutúr. Og þá var sko hundaeigendum blótað. En nú er það stórmerkilegt ef maður sér hundaskít á gangstéttum.

Og það er náttúrulega ekkert nema frábært. Hundaeigendur hafa tekið sig mjög á og eru nú orðnir fyrirmynd annarra dýraeigenda. Eitthvað þarf til að stemma stigu við kattaskítnum, sérstaklega í sandkössum á leikvöllum því í kattaskítnum er mikið af ormum og viðbjóð sem geta gert börn fárveik. En ég ætla nú ekki að fara að röfla yfir því, ég ætlaði að vera svo jákvæður!

En semsagt: Til hamingju hundaeigendur með frábæra umgengi sem er öðrum dýraeigendum til fyrirmyndar! :)