Mig langar að segja ykkur frá því að við Arwen skelltum okkur í Bronsprófið í hlýðni á vegum HRFI núna síðasta sunnudag. Ég var búin að ákveða með sjálfri mér að taka þátt í næsta Brons prófi en fyrirvarinn af þessu prófi var full stuttur svo ég ætlaði að bíða með þetta enda vorum við ekki alveg fullþjálfaðar fyrir þetta próf. Engu að síður þá fór það nú svo að 3 dögum fyrir prófdag tók ég þá ákvörðun að skrá okkur og var æfingarprógramm keyrt í gegn alla helgina! Á sunnudeginum mættum við svo galvaskar og gekk bara nokkuð vel :)
Bronsprófið byggist á hælgöngu í og án taums, liggja og sitja, stoppa á ferð og standa kjurr á meðan þjálfarinn gengur burt, liggja kjurr á meðan þjálfarinn fer frá og innkall. Dómarinn var Line Sæther frá Noregi. Mér persónulega fannst hún mjög góð, ég var mjög stressuð en hún róaði mig mikið niður með góðum útskýringum á dómi sínum fyrir hvert atriði og segja mér hvað ég mætti gera betur og hvað ég væri að gera gott. Almennt var hún ánægð með okkur Arwen og sagði að ég væri á réttri braut með hana þótt okkur vantaði vissulega meiri þjálfun.
Í prófið mættu alls 7 hundar, 4 Schäfer, 1 Dobermann (Arwen mín), 1 Briard og 1 Labrador. Það var Schäfer tíkin Gizella sem vann prófið örugglega, í 2. sæti var Guðmundur Brynjólfsson hundaþjálfari og það 3. tókum við Arwen og ég verð að segja að mér þykir það nokkuð gott hjá okkur m.v. skamman fyrirvara og þá staðreynd að daman er rétt að verða 16. mánaða og svolítil gelgja í sér :)
Mig langar að lokum að hvetja sem flesta, sérstaklega þá sem eru með vinnuhunda, að gangast undir vinnupróf með hundana sína. Mér finnst skammarlega fáir nýta sér þau próf sem í boði eru hérna á klakanum. Persónulega er ég á því að vinnuhundar skulu vera búin að gangast í það minnsta undir Bronsprófið í Hlýðni, Spor 1 og fara í skapgerðarmat áður en sú ákvörðun er tekin um að rækta undan dýrunum! Vinnu hundar eru jú VINNU hundar en ekki stofudjásn ;)

Takk fyrir okkur,
Begga & Arwen
- www.dobermann.name -