Bolla var hundur sem ég átti, blanda af pointier og íslenskum og mjög falleg með yndislegan hvítan og brúnan mjúkan feld og fallegustu augu í heimi. Hún var alveg rosalega góð og bara eiginlega draumahundurinn, hlýddi manni, elskaði mann útaf lífinu, huggaði mann þegar manni leið illa og lúllaði alltaf hjá mér því að ég var svo myrkfælin…
Ég skildi hana einu sinni eftir fyrir utan bókasafn í Hafnarfirði en þegar ég var komin út var hún horfin. Ég leitaði og leitaði og hélt að hjartað mitt myndi springa þegar ég fann hana hvergi… Ég fór heim til að fá hjálp við leitina en þá kom einhver kona með hana og skipaði mér reiðilega að skrá hana í eitthvað svona hundadót, og ég fór með hana inn og hreinlega hélt utan um hana og grét af gleði í heillangan tíma.
Svo liðu árin og hún var alltaf jafn frábær, eiginlega bara alveg eins og lítil og loðin systir eða besta vinkona :P Hún fékk að upplifa margt eins og þegar risastór sjefferhundabrussa réðst á hana og reif stykki úr hálsinum á henni og henni var hjólað upp á spítala og lifði þetta af…
Við fluttum svo út á land og henni fannst það alveg æðislegt, fyrir utan að hún var farin að fitna óeðlilega mikið, en seinna grenntist hún aftur, við vitum ekkert af hverju þetta var. Svo flutti ég að heiman til að geta verið í skóla, en hún fagnaði mér alltaf þegar ég kom heim um helgar.
En einn daginn hringdi mamma mín í mig og ég heyrði strax að það var ekki allt með felldu og þá fékk ég að heyra þessar hræðilegu fréttir: Bolla er dáin…
Dauði hennar er hins vegar hálfgerð ráðgáta, þetta gerðist þannig að pabbi minn var að keyra eftir einhverjum sveitavegi og hún var með í bílnum, svo þurfti hann að opna hlið og hún stökk út. Hann ætlaði að leyfa henni að hlaupa með bílnum því hann var að fara svo hægt og hún vildi greinilega teygja úr sér, en svo hætti geltið skyndilega, og pabbi stoppaði. Hann sá hana liggja í kantinum, dauða, og augun hennar voru brostin… Vinur hans sem var að keyra á eftir honum segist hafa séð hana fara mjög nálægt dekkinu, en pabbi fann ekki fyrir neinu né sáust nein ummerki um að keyrt hefði verið yfir hana… Þetta hefði líka getað verið hjartaáfall eða eitthvað í þá áttina… Ef þið vitið eitthvað um hvað þetta gæti verið, endilega segið þið mér frá því.
En jæja… Ætli það sé ekki betra að hafa elskað og misst en að hafa aldrei elskað eins og einhver sagði einhverntímann…