Tekið af heimasíðu Embættis Yfirdýralæknis

Að undanförnu hefur borið meira á veikindum hjá hvolpum en eðlilegt er. Hvolparnir verða mjög slappir og fá uppköst og niðurgang. Nokkrir hafa drepist en flestir ná sér eftir nokkurra daga meðhöndlun. Sumir hvolpanna hafa haft einkenni sem geta bent til lifrarbólgu, en engin slík tilfelli hafa verið staðfest nýlega. Grunur beinist því aðallega að öðrum veirusýkingum, þó lifrarbólga hafi ekki verið útilokuð. Um nokkurn tíma hafa hundar ekki verið bólusettir gegn lifrarbólgu, því hverfandi hætta hefur verið talin á smiti. Komi hins vegar upp sterkur grunur um lifrarbólgusmit verður bólusetning alvarlega íhuguð. Yfirdýralæknir hefur hvatt dýralækna til að senda sýni til rannsókna á Keldum og upplýsingar um sjúkdómstilfellin til sóttvarnadýralæknis. Á meðan ekki er vitað hvað veldur þessari veiki, ættu eigendur að forðast að fara með hvolpana sína á staði þar sem mikið er af ókunnugum hundum. Finnist skýring verður hún tilkynnt og einnig ef nýjum tilfellum fækkar verulega. Nánari upplýsingar veitir Auður Lilja Arnþórsdóttir, sóttvarnadýralæknir hjá embætti yfirdýralæknis í síma 433 7016 eða 899 3002.
—————————————————

Mig langar að biðja alla eigendur ungra hunda að vera ekki að þvælast með þá innan um aðra hunda eða vera með þá á vinsælum hundasvæðum. Ég veit nú þegar um sex hunda sem hafa dáið eða verið lógað vegna þessarar sýki og allir kvöldust þeir í nokkra daga áður en þeir gáfu upp andan.

—————————————————-

Fyrir þá sem ekki vita hvernig lifrabólga er, hérna smá lýsing tekið af vef Dýralæknafélags Íslands:

Smitandi lifrarbólga í hundum er veirusjúkdómur (Canine adenovirus type 1) sem veldur margvíslegum, en ekki alltaf augljósum einkennum. Einkennin geta verið afar mild og horfið á fáeinum dögum en einnig alvarleg og geta leitt hundinn til dauða. Hækkaður hiti, eymsli við þreifingu á kvið, eitlastækkun, lifrarstækkun, hósti og blóðugur niðurgangur geta öll verið einkenni smitandi lifrarbólgu hunda. Einkennandi fyrir sjúkdóminn er að um 20% óbólusettra hunda fá bjúg í hornhimnu augans, annars eða beggja, nokkru eftir að önnur einkenni hans hafa horfið og verður augað eða augun þá ópalblá. Hundurinn verður ljósfælinn og kiprar veika augað. Bjúgurinn hverfur á nokkrum dögum og augað verður jafngott eftir. Þessi bjúgur getur einnig komið í kjölfar bólusetningar en er hættulaus. Meðgöngutími smits er 4 til 7 dagar og berst smitefnið með munnvatni, saur og þvagi. Hafi hundur sýkst, getur smitefnið borist út með þvagi í allt að 6 – 9 mánuði.

—————————————————-

Hundar hafa ekki verið bólusettir hér á landi sl. 2 ár fyrir lifrabólgu vegna skorts á bólusetningarefni, en hundar sem voru bólusettir fyrir þann tíma eru ennþá með virka bólusetningu.
Kv. EstHer