Hér eru nokkrir punktar og ábendingar fyrir þá sem eru að hugsa um að fá sér hund.

Hefur þú tíma til að eiga hund ?
Hundar þurfa mikla ástúð og athygli, ert þú í aðstöðu til að vera heima hjá hundinum þínum? Þeir eiga flestir erfitt með að vera heima einir meira en nokkra klukkutíma á dag og það er varla réttlætanlegt að vera að fá sér hund ef að þú getur ekki verið heima með honum eða séð til þess að hann sé ekki einn heima á daginn.

Kostnaður, hefur þú efni á hundi?

Það kostar þónokkurn pening að eiga hund, ef að þú býrð á höfuðborgarsvæðinu þarft þú að borga hundaleyfisgjald sem er í kringum 15 þúsund krónur á ári.
Einnig þarf að ormahreinsa þá amk einu sinni á ári og jafnframt bólusetja þá fyrir smáveirusótt.
Oft kemur upp ýmis óvæntur kostnaður svo sem dýralæknis kostnaður, sú þjónusta er frekar dýr að dýralæknunum ólöstuðum.
Þá þarf að kaupa fyrir þá fóður, en sá kostnaður fer auðvitað eftir stærð hundana :)

Ert þú í aðstöðu til að eiga hund?

Býrð þú í blokk? Þá þarft þú að fá leyfi hinna í blokkinni fyrir hundahaldi, enn sem komið er þurfa allir að samþykkja hundahald í fjölbýlishúsum. Það er mjög leiðinlegt að vera með hund sem þarf svo kannski að losa sig við vegna þess að einhver er ósáttur við veru hans í húsinu, best er að fá leyfið fyrirfram til að forðast ósætti og leiðindi.
Treystir þú þér til að fara með hann út að ganga hvernig sem viðrar og hleypa honum út oft á dag til að gera þarfir sínar?
Hundar þurfa að hreyfa sig eins og við hin og þeir geta ekki haldið í sér endalaust, það er varla nóg fyrir þá að fara bara 2 sinnum á dag út að pissa. Hafa ber í huga að góður hundaeigandi þrífur alltaf upp stykkin eftir hundinn sinn.

Ert þú manneskja í að þola hundahár?

Sumar tegundir fara meira úr hárum á meðan aðrar missa varla neitt af sér. Þetta ætti að kynna sér áður en nýr hundur er tekinn inn á heimilið.
Þá þarf líka að athuga hvaða tegund hentar þér og þinni fjölskyldu best, sumir hundar eiga erfitt með að þola hávaða og áreiti sem fylgir oft börnum. Einnig þurfa sumar hundategundir mikið meiri hreyfingu en aðrar.

En umfram allt þarft þú að vera þolinmóður og ástríkur og vera tilbúinn að elska hundinn þinn ótakmarkað og sýna honum þolinmæði sama hvað gengur á.
Ef að allt ofantalið gengur upp og þú ákveður að fá þér hund ertu að eignast besta félaga sem hægt er að eignast.
Hundar spyrja einskins og elska oftast eigandann sinn ótakmarkað, þeir eiga bara það besta skilið, reynum að búa vel að hundunum okkar og sýna þeim og öllum öðrum dýrum þá virðingu og velvilja sem þau eiga svo innilega skilið.

Kær kveðja
Zallý

(endilega bætið við ef ég hef gleymt að taka eitthvað fram :)
———————————————–