Ég hef ekki verið á huga í nokkra mánuði og er ekki búin að skoða allt greinasafnið, þ.a. ég biðst velvirðingar ef þetta mál hefur þegar verið rætt.

Ég á mjög stóran hund, sem fær göngutúr MINNST 3-4 sinnum á dag. Eins og fólk og önnur dýr þurfa hundar að pissa og kúka oftar en einusinni á dag (hugsiði ykkur að geta ekki farið á klósettið hvenær sem þið vilduð!!!!), auk þess að fá næga hreyfingu. Ég hef alla tíð þrifið samviskusamlega eftir mína hunda, enda finnst mér það algjörlega sjálfsögð tillitsemi, og heilbrigð skynsemi, þegar búið er í þéttbýli.
Það sem hefur farið í pirrurnar á mér mjög lengi er allt þetta fólk sem hirðir ekki um þetta. Mér finnst það óþolandi að vera að þrífa upp eftir hundinn minn á meðan það er hundaskítur út um allt eftir annarra manna hunda. Þessir “hundaeigendur” koma óorði á okkur hin sem eru alsaklaus. Á tímabili var ég í því, að því er mér fannst, að þrífa upp eftir annannhvern hund í hverfinu, í öllum pirringnum.
Mér finnst að þetta fólk ætti að muna það, að ekki er langt síðan hundahald var BANNAÐ í Reykjavík og nágrenni og vafalaust voru ein rökin fyrir því banni óþrifin. Rúlla af svona “grænmetispokum” kostar ekki nema 30-60 krónur í næstu matvöruverslun. Það er skoðun mín, að ef fólk getur ekki axlað ALLA þá ábyrgð sem fylgir því að hafa hund á heimili sínu, þá á það ekki að vera með hund. Einfallt.

Eru fleiri að pirra sig yfir þessu, eða er ég eina nöldurskjóðan í þessum geira?

Stöndum saman og komum ekki óorði á hundana okkar,

L.