Tíkin min hún Tina, 8 ára, hefur alltaf verið alveg ótrúlega heilsuhraust, þar til núna um daginn, þegar hún lenti heldur betur í leiðinlegri lífsreynslu.
Hún lóðaði núna í desember sl. og þegar fór að síga á seinni hluta lóðaríisins vildi hún alltaf fara oftar og oftar út að pissa, og í hvert sinn sem hún fór út sat hún og sat eins og hún væri að losna við fleiri fleiri lítra. Okkur datt tvennt í hug: annaðhvort væri hún að reyna að treina tímann til að hitta einhverja álitlega gæja :) eða þá að hún væri komin með blöðrubólgu.
Við biðum samt þar til lóðaríið var afstaðið, en hún hélt þessu samt áfram, og þetta ágerðist alltaf; hún var alltaf lengur og lengur að pissa, og fór oftar og oftar út.
Svo í byrjun janúar fór ég með hana til dýralæknis til að láta athuga hvort hún væri með blöðrubólgu. Dýralæknirinn sem skoðaði hana sá engin bein einkenni blöðrubólgu, nema þetta pissudæmi náttúrulega, svo hún setti Tinu á sýklalyf og sagði mér að hafa samband ef þetta væri ekkert farið að skána eftir 3 daga.
Þremur dögum seinna var Tina hins vegar margfalt verri, og ýlfraði út í eitt, en gat ekkert pissað, og ég var bara með opið út fyrir hana því henni fannst hún þurfa þess, og vildi ekki pissa inni. Þá hringdi ég beint í dýralækninn, og hún sagði mér að koma með hana bara strax, sem ég gerði.
Þegar læknirinn fór að þreifa á henni kviðinn var einhver risastór fyrirstaða þar, sem hún hélt að gæti verið æxli. Þá skelltu þær Tinu í sónar og röntgen, og þá kom í ljós að þetta var þvagblaðran í henni sem var orðin svo stór að hún fyllti út í kviðinn og upp að rifbeinum! Alveg risastór semsagt! Og Tina greyið var svo þrútin öll þarna, að þær gátu ekki einu sinni þrætt í hana þvaglegg, þannig þær þurftu að stinga á blöðruna í gegnum kviðinn!
Síðan tveimur dögum seinna var aftur reynt að þræða hana og það tókst, og hún var með þvaglegg í einn sólarhring. Þegar hann var tekinn úr, var leiðin alveg greið, og mín getur núna pissað áreynslulaust. :)
Það er ekki almennilega vitað hver ástæðan fyrir þessu er, en við sónar fundust einhver lítil korn í blöðrunni. Dýralæknunum datt helst í hug að þetta hefðu verið nokkurs konar “steinamöl” sem hefði getað verið nóg til að stífla blöðruna. Svo var hún líka svo bólgin greyið, sem þær vissu ekki alveg hvort væri orsök stíflunnar eða afleiðing, þannig þeim datt líka í hug að einhver hundur hefði getað komist upp á hana á lóðaríinu, og hún hefði bólgnað svo mikið að allt hefði stíflast.
Við þorðum samt ekki að taka neinn séns með hana, svo hún var á steinaeyðandi fæði í 5-6 vikur og nú er hún komin á “almennilegt” fæði (ég var með hana á pedigree).
Einhverjum tveimur vikum eftir þetta, fékk hún síðan svo rosalega sýkingu í augun þessi elska, svo hún var drifin upp á dýralæknastofu, þar sem við fengum augnsmyrsl. Það er bara vonandi að hennar skammtur sé búinn í bili :)
Svo vil ég nota tækifærið til að koma því á framfæri hversu ánægð ég er með þjónustuna og hjálpina frá Dýralæknastofunni í Garðabæ! Fólkið sem vinnur þar er allt með hjarta úr gulli :)