Meira um Dalsmynni
Ég sá að þær Guðmunda og Sædís svöruðu bréfi mínu um Dalsmynni. Að sjálfsögðu langar mig til að svara þeim til baka. Mikið er ég nú fegin fyrir ykkar hönd að hundarnir ykkar séu gallalausir, en því miður hafa ekki allir verið svo heppnir. Ein kona sem ég þekki á 10 hunda frá Dalsmynni en einungis 2 þeirra eru í lagi. Þetta er því miður ekki einsdæmi. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að gallar geti alls staðar komið upp, en að sjálfsögðu ætti þá ekki að rækta undan þeim því gallarnir eru arfgengir. Auðvitað eru hundarnir samt yndislegir, hverjum finnst ekki sinn hundur sá besti í heimi, það er heldur ekki verið að setja út á þá heldur aðstöðu foreldra þeirra. Gallarnir eru ekki það sem ég hef mestar áhyggjur af. Það er staðreyndin að það er ekki fræðilegur möguleiki að 4 manneskjur geti hugsað um hátt í 200 hunda. Það þarf að þrífa búrin alla daga og gefa hundunum viðunandi hreyfingu og það er óhugsandi að þau hafi tíma í að gera það hvern einasta dag fyrir hvern einasta hund. Ef myndirnar sem eru á heimasíðunni www.simnet.is/jv1 eru skoðaðar, má sjá að vesalingarnir þurfa að liggja í sínu eigin hlandi og saur sem er algjörlega óviðunandi. Ég er mikill dýravinur og það stingur mig í hjartað að hugsa til aumingja hundana sem þarna búa. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að tíkur með hvolpa ættu ekki að vera undir stöðugu áreiti, en ég vissi ekki betur en að þær lægju í sérstöku hvolpaherbergi og því ætti að vera óhætt að skoða aðstöðu hjá hinum hundunum. Ég vil endilega benda aftur á að nú hafa reglur um hundabú verið settar og tel ég þær skýrar. Það er hægt að skoða þær nánar á dyravernd.is en ég furða mig á því að ekki skuli farið eftir þeim á Dalsmynni. Það á enginn að komast upp með svona lagað!

Bergþóra Bachmann
Brekkukoti, Bessastaðahrepp
- www.dobermann.name -