Ég vildi segja ykkur frá leiðinlegu atviki sem ég lenti í, í dag. Hér á eftir fer
kvörtunarbréf sem ég sendi á Hafnarfjarðarbæ, Morgunblaðið, Dagblaðið og
Fréttablaðið.

Sæl verið þið.

Í dag eins og marga aðra daga ákvað ég að fara með hundinn minn upp að
Hvaleyrarvatni í Hafnarfirði til að viðra hann. Ég hef gert þetta í um það bil 2 ár og
það hefur aldrei verið skilti þarna sem segir til um hvort að hundar megi vera
þarna eða ekki. Þetta er nokkra mínútna akstur frá bænum að malarvegi með
vatni og fallegri náttúru og ekkert skilti sem bannar lausagöngu hunda, reiknaði
ég með að ég væri í fullum rétti.

Þegar ég var í mínum mestu makindum að viðra hundinn og ónáða ekki sálu þá
kemur eftirlitsmaður og rekur mig í burtu af svæðinu, því ég var með hund. Ég
spurði hann af hverju það væru þá ekki skilti sem sýndu að lausaganga hunda
væri bönnuð þar og hann svaraði því að hann einfaldlega vissi það ekki og hann
væri sammála mér að það þyrfti að setja upp skilti. Það sem reitir mig virkilega til
reiði er að ég hef búið í Hafnarfirði nánast alla mína ævi og ég hef eins og ég
sagði hér áður farið með hundinn minn á nánast hverjum degi upp að
Hvaleyrarvatni án nokkurra vandkvæða. Meðan ég var þarna sá ég að minnsta
kosti tvo aðra hundaeigendur í kringum vatnið. Ég hef séð í það minnsta 100
mismunandi hundaeigendur í kringum vatnið og suma hef ég séð oftar en einu
sinni. Ég mundi skilja það ef það væri bannað að vera með hunda við vatnið á
varptímum en mér finnst þetta rosalega leiðinlegt.

Kvörtun mín fellst í því að Hafnarfjarðarbær býður hundaeigendum ekki upp á
nein svæði til að vera með hundana sína á og við erum reknir af þeim fáu svæðum
sem við teljum okkur mega vera á. Margir hundaeigendur hittast á svæði sem er
kallað Bali og er innan bæjarmarkanna svo ég býst við að það sé líka bannað. Það
kæmi mér ekki á óvart ef hundaklúbbar hittist oft við Hvaleyrarvatn þar sem það
eru ekki til nein almennileg svæði til að vera með þá á. Ég er rosalega reiður og ég
mun ekki gefa núverandi bæjarstjórn mitt atkvæði í næstu kosningum, einnig
mun ég flytja úr bænum næst þegar ég flyt.

Það er augljós staðreynd að ef bærinn mundi búa til svæði fyrir hundaeigendur,
myndi það vera mjög lélegt því í dag er bókstaflega allsstaðar bannað að vera
með hunda.

Mér finnst ansi hart að þurfa að keyra langar leiðir, t.d. inn á Geirsnef, til að viðra
hundinn minn “löglega”. Við mannfólkið hrifsum öll svæði af dýrunum og gefum
ekkert til baka!

Með kveðju og von um birtingu,
Kristinn Örn Sigurðsson.

Ég skil ekki af hverju köttum er alltaf svona frjálst að vera lausir. Þeir eru jú
hreinlegri en skv. minni reynslu þá eru þeir mun hætturlegri öðrum dýrum, t.d.
fuglur og þess háttar.

Ég vona að ég fái góð viðbrögð við þessari grein og allt skítkast er afþakkað.