Ég var að flytja til Svíþjóðar og þótt ég sé bara búin að vera hérna í stuttan tíma finn ég fyrir augljósum mun á hvað hundarnir hérna eru meira “virtir” en á Íslandi. Veit ekki alveg rétta orðið. Þeir eru allavega mjög algengir hérna og maður fer aldrei út án þess að sjá a.m.k einn hund.

Mér finnst að á Íslandi eru hundarnir bannaðir alls staðar. Þeir mega t.d. ekki vera í Elliðadalnum, ekki í almenningsgörðum og ekki í miðbænum á aðalopnunartíma verslana.

Hérna er þetta allt annað. Hundar eru leyfðir í lestunum, í strætóum, niðri í miðbæ og bara alls staðar. Það þarf auðvitað að borga smá gjald fyrir þá í strætó og lest, en þeir mega fara í þær. Í almenningsgörðunum eru fullt af ruslatunnum fyrir hundaúrgang og þar eru oft verðir sem sekta fólk ef þeir hirða ekki upp eftir hundana.

Mér finnst þetta alveg frábært og mér er virkilega farið að klæja í puttana að fá mér hund hérna líka. Það er svo auðvelt, þeir eru leyfðir í langflestum leiguíbúðum og svoleiðis. Mér finnst þetta kerfi alveg til fyrirmyndar og ég skil ekki af hverju Ísland er svona öðruvísi þegar kemur að dýrum??

Kveðja, Karen.