——————————————————- ————————-

Jónas á Ferðaskrifstofunni leit upp frá skrifborðinu sínu einn daginn og sá gamlan mann og gamla konu standa við gluggann og horfa á auglýsingarnar sem auglýstu alls konar ferðir á hina og þessa skemmtilega staði um heiminn. Gamla fólkið leit hnuggið út, en vegna þess að Jónasi hafði gengið vel síðustu viku og hann var í góðu skapi, þá ákvað hann að gera þeim greiða.

Hann kallaði gamla parið inn á skrifstofuna sína og sagði „Ég veit að þið eruð á eftirlaunum og gætuð aldrei haft efni á því að fara í draumaferðina, svo að ég ætla að senda ykkur í skemmtilegustu og þægilegustu ferð lífs ykkar á minn kostnað og ég tek sko ekki nei sem svar.“

Hann kallaði síðan á ritarann sinn og lét hana útbúa tvo flugmiða og panta herbergi á fimm stjörnu hóteli. Gamla fólkið var í sjöunda himni, þakkaði fyrir sig og fór í ferðina.

Um mánuði seinna kom gamla konan aftur inn á ferðaskrifstofuna og heilsaði uppá Jónas. „Hvernig gekk ferðin?“ spurði Jónas.

„Ferðin var skemmtileg og hótelið var yndislegt,“ sagði gamla konan. „Ég ætlaði einmitt að þakka þér fyrir það allt saman. En það er eitt sem ég skil ekki. Hver var þessi gamli maður sem þú settir í herbergið með mér?“