Ég veit að sumir gætu haft gaman af þessari sögu og leyfi ykkur því að njóta!

Föstudaginn 13. október fór ég í Herralagerinn í Fákafeni til að athuga fatamálin (kaupa eitt bindi eða skyrtu) til að gera langa sögu stutta keypti ég ein jakkaföt, tvennar skyrtur og eitt bindi og greiddi tæplega 25.000kr. fyrir. Þegar ég kem heim sé ég að á strimlinum er önnur skyrtan er greinilega ofgreidd, skv. verðmiða átti hún að kosta 3.390 en skv. strimli er ég rukkaður um 3.990 kr. (mism. 600kr).

Á laugardeginum fer ég í verslunina aftur og hitti fyrir sölumanninn og segi honum hvernig komið sé og óska leiðréttingar. Hann lítur á miðana og segir svo: “þetta er eins og þetta á að vera, það er kassinn sem ræður ekki verðmiðinn”. Ég varð eðlilega hvumsa og spyr hvort hann sé nú alveg viss því ég hefði engar efasemdir um að verðmiðinn gilti. Hann var nú alveg klár á þessu enda búinn að vinna víða um ævina (trúlega ekki eldri en 25 ára), ég geti heldur ekki verið að fara fram á þetta búinn að fá 50% afslátt af öllu hinu! Ég er nú ekki þannig að ég láti vaða yfir mig á skítugum skónum og bið nú um að fá að tala við eigandann að versluninni eða í það minnsta verslunarstjórann. Eigandinn er þá ekki á staðnum og viðmælandi minn segist bera titilinn verslunarstjóri. Heldur nú rifrildið áfram uns hann gefur lítillega eftir og spyr hvað það sé eiginlega sem ég vilji ég sé nú búinn að fá 50% afslátt af öllum vörunum sem ég keypti. Ég segist eðlilega vera að fara fram á 600 kr. og afsökunarbeiðni á mistökunum. Réttir hann mér þá 600 kr. með þjósti og segir: “og hypjaðu þig svo út úr búðinni!”

Nú fyrst varð ég reiður og sagði honum og ég vildi fá strimilinn og verðmiðann aftur því ég muni tala við eigandann, Neytendasamtökin og fjölmiðla. Tekur þá kauði til við að rífa verðmiðann og kastar svo miðunum í ruslafötuna. Ég segi strák þá að ef hann vilji mig út úr búðinni þá nægi ekki að beita mig valdi hann þurfi að reyna að beita mig afli!  Þá varð kappin smeykur og hótar að hringja á lögregluna sem ég hvatti hann til að gera enda gerði hann sig þá endanlega að fífli að mínu mati. Hann hringir síðan og eftir langa mæðu fær hann áheyrn hjá þeim og loforð um innlit.

Líður nú nokkur stund og ég bíð og nota tímann vel til að upplýsa aðra viðskiptavini um málið sem og að hvetja strák til að hringja aftur til að fá lögregluna til að koma með neyðarljósunum á. Hann sagði mér að ég gæti vel farið og hirt bara peninginn og hann segði löggunni að ég væri farinn. Ég vildi það eðlilega ekki en hvatti hann til að hringja í eiganda fyrirtækisins og segja honum hvernig staðan væri. Það gerir hann og eigandinn ræddi við mig í símann og verður hreinlega orðlaus og fær að tala við sinn mann. Á meðan kemur lögreglan og spyr hvað sé um að vera. Ég segi grín vera í gangi og segi þeim málavöxtu, þeir snúa sér þá að verslunarstjóranum og segja honum að svona hlutir séu einkamál og hafi ekkert að lögreglu að gera og við getum leyst þetta okkar á milli. Ég tók líka undir það og sagði að ég vildi endurgreiðsluna og afsökunarbeiðni ásamt því að hann drægi orð sín til baka. Hann sagðist ekkert gera nema ég færi ekki með þetta í blöðin. Ég lofaði því meira að segja skriflega til að reyna að kristna drenginn!

Þá stundi hann upp afsökunarbeiðni sem og sagði hann að “eigandinn bæði mig persónulega afsökunar” (sem ekki var á staðnum!) en sagði mig jafnframt skulda sér afsökun. Ég var nú ekki alveg sammála því en sagði vel geta beðið hann afsökunar á þessu pexi okkar sem hann myndi vonandi læra af en minnti hann jafnframt á að ég væri viðskiptavinur verslunarinnar en hann verslunarstjóri. Máli mínu til stuðnings rétti ég honum hendina sem hann tók í.

Ég setti mig svo í samband við eiganda fyrirtækisins eftir helgina og sagði vilja ræða þetta við hann augliti til auglitis. Hann sagðist bara vilja biðja mig innilegrar afsökunar á þessum leiðindum sem væri búið að ræða innan fyrirtækisins sem og við verslunarstjórann (heitir Svavar!). Ég sagði að ég hefði viljað kynna mig fyrir honum og hann gæti þá t.d. sent mér skriflega afsökunarbeiðni frá þeim félögum. Hann vildi bara láta þetta duga en eins og þið sjáið er ég ekki sammála því og því fær þetta að ganga á netinu að vild!