Sönn íslensk gamansaga Fyrir 2 mánuðum var ég ásamt Effa (EFFi), Betu og Mörtu á rúntinum hér í Hveragerði. Við vorum á bílnum mínum og þær sátu aftur í. Beta lagði GSM-inn sinn á hilluna aftur í sem liggur yfir skottinu en það eru tvö göt á henni fyrir hátalara, en ég bara hafði enga þá. Svo dettur síminn hennar Betu í gegnum annað gatið og ofan í skottið. Hún ætlaði að fara að teygja sig eftir símanum þegar ég sagði henni að passa sig á rollunni. “Hvaða rollu?” spurði hún og ég sagði henni að ég hefði lent í því óhappi daginn áður að keyra á og drepa rollu og að ég hafi nú ekki viljað skilja hana eftir og sett hana í svartan ruslapoka og ætlaði svo að láta farga henni. Beta fylltist að sjálfsögðu viðbjóði af því að hún þurfti að sækja símann sinn í skott þar sem dauð rolla í ruslapoka væri. Hún lét sig þó hafa það og sótti símann.

Um það bil viku seinna hittum við þær úti í sjoppu og þær spurðu okkur Effa hvort að við værum búnir að losa okkur við rolluna en við neituðum því og sögðum að hún væri enn í skotti bílsins. Þá spurðu þær hvort að það væri ekki komin svakalega vond lykt í bílinn út af hræinu. Við sögðum að svo væri ekki, við einfaldlega sprautuðum smá ilmvatni og hreinsiefnum með rotvarnarefnum í yfir hræið og þá kæmi engin lykt. Þessu trúðu þær og fóru svo að segja vinum sínum frá rollunni. Áður en maður vissi af var þetta komið út um allan bæ að við Effi geymdum rollu í skottinu og þessu trúðu heilmargir. Þó voru sem betur fer (sem betur fer segi ég því ef allir væru jafnheimskir og þeir sem þessu trúðu væri óbærilegt að búa hér á Jörðinni) nokkrir sem trúðu þessu alls ekki en við Effi báðum þá bara um að segjast hafa fengið að sja rolluna.

Svona gekk þetta samfleytt í tvo mánuði, þ.e. frá því að Beta missti símann þar til að þessi saga barst erkifjanda mínum til eyrna. Sú heitir Auður. Við nýtum hvert tækifæri sem gefst til að niðurlægja hvort annað og þegar hún frétti af þessu sá hún sér heldur betur leik á borði til þess að klekkja á mér. Ég hitti hana stuttu eftir að hún heyrði fyrst af þessu (þá hafði þessi saga lifað sældarlífi í 2 mánuði) og hún spurði mig hvort að þetta væri satt. Ég sagði henni að svo væri og þá sagði hún: “Það er hægt að kæra þig fyrir þetta. Þetta er ólöglegt!”. Ég sagði henni að mér væri nú heldur betur sama.

Kvöldið eftir þessi orðaskipti okkar Auðar var ég sem fyrr á rúntinum með Effa og kærastan hans var með. Löggan var komin í bæinn að ganga úr skugga um að ekki væri allt með feldu í bæ þeim er við hvera er kenndur. Svo koma þeir auga á mig og ákveða stoppa mig. Bílstjórinn kom yfir til mín og ég rétti honum ökuskírteinið mitt og hann leit á það og spyrði svo: “Ertu nokkuð með eitthvað í skottinu sem á ekki að vera það?” og ég svaraði: “Nei, ekkert”. “Ætlarðu samt aðeins að leyfa mér að kíkja.” Ég samþykkti það og opnaði skottið fyrir manninum. Að sjálfsögðu var ekkert í skottinu sem átti ekki að vera þar. Ég var samt beðinn um að koma yfir í löggubílinn að rabba lítð eitt. Ég spuði þau hvort að það hafi verið tilkynnt að ég væri með rolluhræ í skottinu hjá mér og þau sögðu svo vera. Þá sagði ég þeim söguna sem þið hafið verið að lesa núna síðustu mínútur og við hlógum öll dátt. Litlu síðar hitti ég Auði og hún neitaði að sjálfsögðu að hafa hringt á lögguna því að þá hefur hún væntalega verið búin að átta sig á því hvurslags afspyrnu hálfviti og erkifífl hún hefur þurft að vera til að trúa þessi og að hafa í framhaldi af því hringt á lögguna. Þetta sem átti að vera eitt það besta “klekk” hennar á mér og að koma mér í klandur við lögin snerist heldur betur í höndum á henni og sýndi bara enn betur fram á það hve heimsk hún getur verið greyið. Upp frá þessu virðist nafnið Sauður, af skiljanlegu ástæðum, eiga einstaklega vel við Auði.

Þannig var nú þessi saga og ég vona að þið hafið haft gaman af. Ég hvet alla eindregið til að hripa niður og senda hingað sambærilegar skopsögur sem þið hafið upplifað.

Kveðja,
Hvati