Jónas vinur okkar, væskillinn sem hann er, ákvað að reyna að finna sér starf þar sem hann þyrfti ekki að lenda í útistöðum við fólk, því útistöður er það versta sem 50 kílóa rindill veit. Að lokum fann hann sér starf sem strætóbílstjóri, því hann var viss um að strætóbílstjórar þyrftu aldrei að stæla við farþegana.

Allt gekk að óskum í dáldinn tíma og Jónas var hamingjusamur í nýja starfinu. Þá gerðist það einn daginn þegar hann stoppaði við stoppistöð í Norðurbænum að inn kom svakalegur risi, yfir tveir metrar á hæð, með axlir upp á Akranes og handleggi og læri sem ekkert málband náði utanum. Hann ruddist inn í vagninn, starði á Jónas, greyið, og baulaði: JÓN TRÖLL BORGAR EKKI!! Síðan strunsaði hann framhjá Jónasi og settist aftast í vagninn.

Jónas var frekar svektur yfir þessari niðurlægingu, en hvað gat hann gert? Jón þessi gnæfði yfir hann eins og Öræfajökull yfir nærliggjandi sveitir og hann hefði líkast til brotið hann í tvennt ef hann hefði æmt eða skræmt.

Daginn eftir kom sami náunginn inn á sömu stoppistöð og tók aftur fram með beljandi rödd: JÓN TRÖLL BORGAR EKKI!! Og síðan settist hann aftast. Jónas skammaðist sín mikið, en aðhafðist ekkert. Nú ákvað hann, hins vegar, að tími væri kominn til að gera eitthvað róttækt.

Þegar Jónas kom heim til sín hringdi hann í forstjóra strætisvagnanna og fékk hjá honum þriggja mánaða frí. Síðan hringdi hann í heilsuræktina og pantaði þriggja mánaða massaprógram.

Nú tóku við erfiðir þrír mánuðir undir stjórn hörðustu þjálfara á staðnum. Jónas byggði sig upp, tróð í sig fæðubótarefnum og vöðvastyrkjandi vítamínum daginn út og daginn inn, þjálfaði vöðvana frá toppi ofan í tá, lærði Karate, Júdó og hnefaleika – varð, í einu orði sagt, Jón-tröll-étandi ruðningsmaskína.

Fyrsta daginn aftur í vinnunni kom Jón tröll upp í vagninn og viðhafði sín venjulegu ummæli: JÓN TRÖLL BORGAR EKKI!!

En í þetta sinn stökk okkar maður upp, tók í hálsmálið á Jóni Trölli og öskraði á móti: AF HVERJU Í ANDSKOTANUM EKKI???!!!

Jón tröll setti upp furðusvip og svaraði: Jón Tröll er með strætókort.