Nýlega var til umræðu í Ríkissjónvarpinu frumvarp til laga um breytingar á leyfilegu áfengismagni í blóði við akstur bifreiða. Skoðanir voru skiptar en málflutningur fulltrúa lögreglumanna og þá sérstaklega Ragnheiðar Davíðsdóttur vakti athylgi mína. Hún hefur langa og sára reynslu í starfi sem lögregluþjónn af afleiðingum ölvunaraksturs og hefur um árabil reynt að vekja athylgi almennings á alvöru áfengisneyslu við akstur. Ég hef um árabil verið lánsöm við akstur eigin bifreiðar, leigubifreiðar og sem vagnstjóri hjá Strætisvögnum Kópavogs. Aðeins lent í fáeinum óhöppum í upphafi ferils, auk þess að nýlega hljóp hundur á bifreið mína á ferð í Kópavogi, reif afturstuðarann af Volvo bifreið minni og dró með sér fleiri metra í burtu. Tvisvar sinnum á rúmlega þrjátíu ára akstursferli hef ég verið stöðvuð af lögreglu í eftirlitsaðgerðum. Í fyrra skiptið fyrir um 25 árum þegar ég var um hábjartan sumardag að koma úr vinnu sem flugfreyja og ók tveim starfssystrum mínum heim að vinnu lokinni ásamt einum kunningja sem raunar hafði áfengi um hönd. Í bílnum var áfengi sem við höfðum keypt sem tollvarning. Í Breiðholtinu gaf lögreglan mér merki um að stöðva bifreið mína og skipti það engum togum, mér var svipt út úr bifreiðinni án þess að vera gefinn kostur á að taka úr henni bíllyklana, skipað upp í lögreglubifreiðina og ekið á næstu lögreglustöð til skýrslutöku og áfengismælingar. Ég var að því loknu einungis áminnt um að aka með ölvaðan farþega. Síðan mátti ég taka leigubifreið tilbaka og þótti þá heppin að farþegarnir biðu þar eftir mér án þess að hafa hreyft bifreiðina. Síðara skiptið var síðastliðið laugardagskvöld. Ég var þá á ferð um Reykjavík með þrjá erlenda dómara eftir að hafa setið að góðum kvöldverði að veitingahúsinu Lækjarbrekku. Tilefnið var farsæl keppni í samkvæmisdönsum fyrr um daginn. Á Kringlumýrarbrautinni á leið að hóteli farþeganna sá ég blikkandi ljós í bakspegli og taldi það vera sjúkrabifreið og vék til hliðar. Lögreglumaður kemur að bifreið minni og spyr um ökuskírteini, ég stíg út og afhendi honum, en hann bíður mér þá að stíga inn í lögreglubifreiðina þar sem við vorum á mikilli umferðarbraut. Þegar þar kemur er ég spurð um ferðir mínar og þar sem ég var að koma af veitingastað er ég kurteislega spurð hvort ég hafi á móti því að áfengismagn sé mælt með öndunartæki og eftir tvær tilraunir er staðfest að ekki var um áfengisneyslu að ræða. Þeir sögðu að um reglubundið eftirlit hefði verið að ræða og þökkuðu síðan fyrir og óskuðu góðrar ferða. Af þessu tilefni vil ég taka fram að það er skoðun mín að við sem tökum að okkur að vera í forsari fyrir íþróttahreyfinguna eigum að leitast við að neyta hvorki né hafa áfengi um hönd þegar við sinnum störfum okkar. Við leggjum áherslu á það og höfum væntingar til barna okkar og unglinga aðþeir viðhafi góða framkomu, öðrum til fyrirmyndar og okkur ber því að gera sömu kröfur til okkar sjálfra. Mikill munur er á framkomu og vinnuaðferðum þessara lögreglumanna árið 1998 eða þeirra sem hlut áttu að máli árið 1973. Störf lögreglunnar eru ábyrgðar- og áhættustörf. Lögreglan þarf oft að takast á hendur erfið verkefni, svo sem eftir umferðarslys og önnur slys og þá er mikilvægt fyrir okkur sem þiggjum þjónustu þeirra að til þeirra starfa veljist góðir starfsmenn sem eru vandanum vaxnir. Lögreglan nýtur þó ekki þeirrar viðurkenningar í launakjörum að teknu tilliti til þess að óneitanlega fylgir þessu starfi mikið álag og þeirri áhættu sem starfinu fylgir. Því fylgir ábyrgð að aka bifreið, ekki síst ef í bifreiðinni eru farþegar auk ökumanns. Ábyrgðin felst ekki síst í því að meta akstursaðstæður og til þess þurfa ökumenn að halda fyllstu athygli og besta viðbragðsflýti sem völ er á. Þess vegna fer áfengisneysla og akstur ekki saman. Það er því rétt markmið að setja í lög ströng mörk við leyfilegt áfengismagn í blóði við akstur bifreiðar. Virðum viðhorf og reynslu lögreglunnar í þessum efnum og stuðlum að því að ökumenn neyti ekki áfengis fyrir akstur.