Hefurðu séð baksíðuna á Dagblaðinu þann 11.03.1998? þar eru tvær stuttar fréttir um að lögreglan hafi tekið unga fíkniefnaneytendur í Kópavogi. Það eru því miður daglega fréttir af fíkniefnaneytendum í dagblöðunum. En þetta er mjög sláandi þarna á baksíðu dagblaðsins, tvö ungmenni tekin með fíkniefni og eða tæki sem notuð eru til neyslu þeirra, sama daginn í Kópavogi. Er þá ástand þessarra mála verra í Kópavogi en annars staðar? Það er það sem enginn veit. Hér í Kópavogi er afar lítil þjónusta fyrir unglinga, hér er engin útideild sem skannar ástand mála á kvöldin. Hér er ein félagsmiðstöð sem stendur undir nafni, hún er staðsett í vesturbænum. Í austurbænum eru að nafninu til félagsmiðstöðvar í grunnskólunum, en þær eru bara að nafninu til, því miður. Foreldrar hér í Kópavogi hafa verið mjög duglegir að skipuleggja foreldrarölt og sinna því mjög vel, og það gerir sannarlega sitt gagn. En það þarf meira til ef við viljum hjálpa unglingum sem eru á leið inná fíkniefnabrautina, til þess að snúa við . Þá þyrfti 2sérmenntaða starfsmenn á bíl, sem tengdir væru öðru unglingastarfi innan bæjarins til þess að sjá um útideildarstarfið, það er fara,um bæinn á kvöldin, kortleggja ástandið, hjálpa og fræða og láta foreldra og félagsmálastofnun vita ef þeir verða varir við eitthvað óæskilegt. Sem sagt það þarf algjörlega að marka nýja stefnu í unglingamálum í Kópavogi. Það kostar peninga að sinna unglingamálum vel, en ég tel að þeim peningum yrði vel varið. Við hjá Kópavogslistanum höfum rætt þessi mál mikið, við höfum heimsótt Hafnarfjörð og séð hvað þeir eru að gera í unglingamálum, næst á dagskránni er að skoða fjölskyldumiðstöðina í Grafarvogi. Einnig höfum við gert okkur far um að ræða við unglinga í Kópavogi. Þau segja að það vanti unglingamiðstöð í austurbæ Kópavogs, sem grunnskólarnir gætu sameinast um. Þar væru til leiktæki, útvarpsútsendingartæki o.fl.þess háttar sem allir skólarnir gætu fengið lánuð o.sv.frv. Þarna gætu unglingar hittst eftir skóla í uppbyggilegu tómstundastarfi, eins og unglingar annars staðar á höfuðborgarsvæðinu eiga kost á að gera. Allt kostar peninga, en uppbyggilegt forvarnarstarf er ódýrari en meðferðarprógramm, fyrir utan það að líf hvers ungmennis er ómetanlegt.