Paolo Maldini skokkar meðan félagar hans í ítalska liðinu æfðu saman í Geel í morgun.
Hinir sterku varnarmenn Ítala, Paolo Maldini og Fabio Cannovaro, ættu að vera klárir í slaginn þegar þeir Ítalir mæta Hollendingum í undanúrslitum EM 2000 á fimmtudag.
Maldini tognaði aftan í læri gegn Rúmenum í fjórðungsúrslitunum og eftir læknisskoðun í gærkvöldi kom í ljós að meiðslin voru ekki eins alvarleg eins og talið var í fyrstu. Það skýrist þó endanlega á æfingu á morgun hvort Maldini geti leikið.
Cannovaro þurfti að hætta á æfingu í morgun vegna hnémeiðsla. Hægra hné hefur verið nokkuð bólgið síðustu daga en hann sagði að það ætti ekki að koma í veg fyrir að hann léki á fimmtudaginn.