Íslenska kvikmyndahaustið er gengið í garð!

Að þessu sinni sýnir Filmundur þrjár íslenskar stuttmyndir. Það eru
myndirnar P.S. eftir Árna Óla Ásgeirsson, Lost Weekend eftir Dag Kára Pétursson og BSÍ eftir Þorgeir Guðmundsson. Íslensk stuttmyndagerð hefur verið í miklum blóma á undanförnum árum og nú gefst kvikmyndaáhugamönnum færi á að sjá brot af því besta hjá Filmundi.

Myndin P.S. er útskriftarverkefni Árna Óla Ásgeirssonar frá The National Polish Film School og er hún nú sýnd í fyrsta sinn á Íslandi. Hún segir frá ungri pólskri konu, sem kemur aftur til heimalandsins eftir langa dvöl á Englandi. Við heimkomuna stendur hún frammi fyrir uppgjöri við fortíðina.

Lost Weekend eftir Dag Kára Pétursson hefur hlotið fjölda viðurkenninga á kvikmyndahátíðum um allan heim, hún vann meðal annars til verðlauna á evrópsku stuttmyndahátíðinni í Brest og alþjóðlegri hátíð kvikmyndaskóla. Emil er plötusnúður. Einn morgun vaknar hann á hótelherbergi án þess að hafa hugmynd um hvernig hann komst þangað. Allar tilraunir til að yfirgefa hótelið renna út í sandinn og kynni hans af starfsmönnum verða sífellt
undarlegri. Hann færist nær endalokum sem eru óvænt, en jafnframt
óumflýjanleg.

Einnig verður myndin BSÍ eftir Þorgeir Guðmundsson sýnd, en hún fékk eins og kunnugt er fyrstu verðlaun á Stuttmyndadögum í Reykjavík í vor. Hún fjallar um tvær týndar sálir sem finna hvor
aðra á Umferðarmiðstöðinni rétt í því sem Verslunarmannahelgin skellur á.

Stuttmyndadagskráin Íslenska kvikmyndahaustið verður sýnd eins og hér segir:

Fimmtudagur 30. ágúst kl. 20:30 og 22:30
Föstudagur 31. ágúst kl. 22:00
Laugardagur 1. september kl. 22:00
Sunnudagur 2. september kl. 22:00
Mánudagur 3. september kl. 22:30

Sjáumst í Filmundi :)