SkjárEinn hefur samið við DV um að sinna almennri fréttaþjónustu fyrir sjónvarpsstöðina en unnið hefur verið að viðamikilli endurskipulagningu á dagskrá og framleiðslu SkjásEins að undanförnu.

Jafnframt hefur SkjárEinn náð samningum við Viðskiptablaðið um fréttaþjónustu á sviði viðskipta- og efnahagsmála.

Að sögn Árna Þórs Vigfússonar sjónvarpsstjóra, er unnið að nánari útfærslu á fréttaþjónustu SkjásEins í samvinnu við DV og Viðskiptablaðið. Fyrst um sinn verður einn fréttatími að kvöldi en stefnt er að því að fjölga fréttatímum fljótlega. ,,Það er gríðarlegur styrkur fyrir SkjáEinn að fá þessa tvo fjölmiðla til liðs við okkur og jafnframt ætti samstarfið að gefa DV og Viðskiptablaðinu aukin sóknarfæri," segir Árni Þór.

DV, Viðskiptablaðið og SkjárEinn hafa að undanförnu átt í viðræðum um samstarf fjölmiðlanna, en stefnt er að enn frekari samvinnu á næstunni. Markmiðið er að styrkja miðlanna markaðslega en jafnframt að nýta betur þekkingu, reynslu og getu starfsmanna þeirra.