Jæja, gott fólk.

Nú er hugi.is að verða ansi stöðluð síða, og gott form að komast á hluti, en þó á örugglega enn eftir að bæta mikið við vefinn.

Af þeim orsökum langar mig endilega að benda á að vefurinn er að mínu mati, svolítið tvíræður.
Hann virðist eiga að þjóna annarsvegar barnafólki og eftirlaunaíþróttamönnum sem stunda golf (þó að sjálfsögðu stundi fleiri golf, þetta er nú bara ábending) og hinsvegar aldurshópnum 14-18 ára, með áherslu á ný áhugamál og sýn á tískuheiminn.

Þetta er allt saman gott og blessað, og vissulega geta allir fundið eitthvað hér inni til að tengja sig við og skoða, og getur verið áhugavert að skoða ýmislegt hér, t.a.m. litbolta sem er nýr möguleiki til afþreyingar á höfuðborgarsvæðinu.

En ég var að velta fyrir mér hvaða aldurshópar það eru í rauninni sem eru að nota hugi.is… eru það bara þessir afmörkuðu hópar, sem á að sníða vefinn eftir, eða eru mun fleiri og breiðari aldurshópar og fólk með víðari áhugasvið sem sækir vefinn.

Nú er ég tvítugur, og nýorðinn stúdent, en ég á samt erfitt með að finna mínum áhugamálum farveg hér á hugi.is.

Mín áhugamál eru allt frá fallhlífastökki, sirkuslistum og eldblæstri, og yfir til hinna hýrustu bókmennta.

Ekki ætla ég nú að fara að biðja um að sérstakt áhugamál með sjónarmiðum eldblásara verði sett á laggirnar hér (þó það væri nú rosalega gaman *hint* *hint* ;) ) hledur ætla ég að benda á hvað væri einfalt að gera áhugamálin svo mikið breiðari. Til dæmis væri hægt að setja upp umræður um menningu, fyir þá sem eru svoleiðis sinnaðir, sérstaka umræðu fyrir skólalífið…hvort sem það á þá við menntaskólann, háskólann eða hinn alræmda skóla lífsins.

Persónulega er ég mjög bókmenntalega sinnaður, og hefði ómælt gaman af því að fá að ræða við þá sem álíka illa er komið fyrir hér á vefnum…

Svo er nátttúrulega alveg spurning hvaða stefnu stjórnendur vefsins vilja taka, en ég vil þó leggja mitt af mörkum til að koma með hugmyndir, og vil ég endilega hvetja alla til að gera slíkt hið sama.

Það sem við hljótum þó öll að eiga sameiginlegt er viljinn til að hafa áhrif, og víst er að við sem stundum hugi.is höfum skoðanir, og förum ekki leynt með það ;).