Bréf þetta sendi ég á netfang Björns Bjarnasonar sem og til birtingar á forsíðu www.Hugi.is.

Efni þessa bréfs snýst um gjaldtöku á óskrifuðum geisladiskum og tækjum til notkunar í tölvum til að skrifa geisladiska.

Sæll Björn.

Nú hefur verið talsverð umræða um gjald á óskrifaða geisladiska og geisladiskaskrifara en ætla ég ekki að telja þá umræðu upp hér.

Aftur á móti eru ýmsir lausir endar sem ekki hafa verið útskýrðir að mínu áliti til hlítar og óska ég eftir svörum frá embætti menntamála á Íslandi vegna eftirfarandi spurninga.

Ef íslenskur tónlistarmaður ákveður að framleiða geisladiska með sinni eigin tónlist á Íslandi, er hann þá skyldugur að greiða 17 krónur af hverjum tónlistardiskum sínum til annara tónlistarmanna eða mun þessi tónlistarmaður geti fengið niðurfellingu gjaldsins?
(þess má geta að samskonar geisladiskar eru notaðir við gerð tónlistardiska og hugbúnaðar).
Ef endurgreiðsla er ekki möguleg, er þá ekki verið að gera íslenskum framleiðendum geisladiska erfiðara fyrir? Það gefur auga leið að tónlistarmenn munu láta skrifa sína diska erlendis til að losna við þetta gjald.

Þar sem þessi lög hafa þegar tekið gildi, þá spyr ég, ef hugbúnaðarfyrirtæki eða eistaklingur sem notar geisldiskaskrifara til að skrifa hugbúnað á óskrifaða geisladiska, er þá möguleiki að fá þessar 17 krónur endurgreiddar, og ef það er, hvert eiga þessir aðilar að snúa sér til að fá endurgreiðslu og hvernig mun þessari endurgreiðslu háttað og hvernig er framkvæmd þessa skipulögð? Mun ráðuneytið? skoða alla geisladiska til að ganga úr skugga um að engin tónlist sé á diskunum?

Getur ráðherra birt tölur yfir innflutta óskrifaðra geisladiska á árunum 1996 til ársins 2000 til að almenningur geri sér grein fyrir umfangi þessa gjalds?

Hvernig mun gjaldi þessu skipt meðal tónlistarmanna? Og hvaða kröfur þarf tónlistarmaður að uppfylla til að fá sinn skerf af þessu gjaldi?

Fer hluti af þessu gjaldi til Sinfoníuhljómsveitar Íslands?

Og síðasta spurningin, er eftir að þessi lög tóku gildi, löglegt að afrita tónlistardiska?..
Þessi spurning er frekar undarleg, því varla getur verið löglegt að afrita tónlistardiska, en samt sem áður er almenningur búinn að greiða lögverndað gjald vegna afritunar..?

Með von um jákvæð viðbrögð.

Atli Már Jóhannsson.