Kæri Menntamálaráðherra.

Nú er ég ekki mikill pólitíkus í mér og reyni að halda mér utan við alla
pólitíska umræðu. Mér finnst venjulega að hvert land eigi að hlýta reglum
samfélagsins hvort sem þau séu samþykk þeim eða ekki, þá eru þetta landslög
og þeim ber að hlýta og hef ég því ekki haft áhuga á að vera í pólitík og
ræða um þessi lög. Einnig sendi ég þér afsökunarbréf fyrir mína "hendi og
baðst afsökunar á hvernig fundurinn í Verzlunarskólanum var í fyrra, enda
var það leiðindaratvik.

En núna er mér alveg hætt að vera sama útaf þessum STEF skatti. Ég efast
ekki um að þú sért kominn með nóg af þessarri umræðu, og að það séu mörg
rök sem að mæla með þessu. Einnig er ég viss um að mín rök geti verið að
einhverju leiti röng og svo framvegis, en það er ekki við öðru að búast þar
sem ég er ekki mikill pólitískur hugsuður. Hins vegar tel ég mig hafa jafn
mikla skoðun á þessu máli og hver annar borgari þó svo ég sé ekki skólaður
í málum ríkistjórnarinnar né útlesinn í þessu máli sérstaklega.

Mér þykir samt það liggja svo ljós fyrir að þessi skattur sé með öllu
rangur. Að leggja skatt og gjald á alla geisladiska og skrifara gengur
einfaldlega ekki upp, þarna er ríkið að innheimta peninga sem
einkafyrirtæki getur ekki innheimt sjálft. Að sjálfsögðu á að virða
höfundarrétt, og það verður ekki litið framhjá því að margir skrifa
tónlist. Að vísu lítið prósent af þeirri tónlist er íslenskt en mér finnst
það persónulega ekki skipta öllu máli. Það sem mér finnst að þessu er
forsjárhyggjan, að vera að refsa borgurum fyrirfram fyrir hluti sem þeir
hafa ekki gert. Margt ólöglegt er hægt að gera með netinu, sem dæmi
tölvurefir og ólöglegt klámefni (s.s. barnaklám), en það gefur samt ekki
leyfi til að vera með forsjárhyggju og fylgjast með öllu sem er gert á
netinu. Eini staðurinn í heiminum sem gerir það er kommúnistastjórnin í
Kína. Þar erum við að sjálfsögðu að tala um róttækt dæmi í forsjárhyggju.
Þeir sía út allt sem er andvígt stjórninni af netinu.

Niðurstaða mín er einfaldlega þessi: Möguleikinn til að fremja brot og
valda fjárhagslegum skaða er alls staðar. Hvort sem það sé hnífur,
geislaskrifari eða eldspýtur. Þá finnst mér persónulega fáranlegt að leggja
sérstakan skatt á eitthvað af þessum hlutum einfaldlega vegna þess að
ákveðið prósent af þeim sem eiga þá, nota hlutina í þágu eyðileggingar.

Ég er ekki að mótmæla því hversu hátt verðlaggningin er. Persónulega á ég
ekki skrifara og kaupi sjaldan óáskrifaða diska og myndi mig muna lítið um
30 kr þegar að því kæmi. Hins vegar er ég að mótmæla þeirri
grundvallarhugsun að hægt sé að taka gjald fyrir skaða sem við gætum
hugsanlega valdið.

Með kærri kveðju og von um svar.

Kári

—===[SVAR]===—

Kæri Kári.

Þakka þér bréfið. Ég er innilega sammála þér um að frelsi eigi að ríkja í
netheimum en það frelsi má ekki ganga á rétt annarra og höfundalögin mæla
fyrir um það, hvernig unnt er að verja þennan rétt, ber mér að framfylgja
þeim með reglugerð. Ekki er unnt að bera þessar lögmæltu samskiptareglur
saman við ritskoðun í Kína, þar sem menn virða auk þess höfundarétt að
engu.

Með góðri kveðju
Björn Bjarnason

——————–

Vill nú byrja á að þakka honum Birni fyrir skjót svör. Ég sendi þetta af heimasíðunni hans um 4 leitið (um nótt) og fékk svar kl 10 í morgun. Ekki amalegur svartími þar. Hins vegar finnst mér þetta bréf vera soldið pólitíkusarlega svarað :) Tökum það lið fyrir lið:

“Þakka þér bréfið. Ég er innilega sammála þér um að frelsi eigi að ríkja í netheimum ”
-Ég er líklegast ánægðastur með þetta svar. Því ég er svo á móti því að hlutir séu cencoraðir af netinu og mér er eiginlega alveg sama hvað það er.

“en það frelsi má ekki ganga á rétt annarra og höfundalögin mæla
fyrir um það, hvernig unnt er að verja þennan rétt, ber mér að framfylgja þeim með reglugerð”
- Gott og vel Frelsi einstaklingsins einskorðast við frelsi annarra. Þetta er grundvallarhugsjón frjálshyggjunnar sem sjálfstæðisflokkurinn stendur víst fyrir. En mér finnst þarna EINMITT verið að brjóta á mínu frelsi með að láta mig borga gjöld fyrir glæpi sem ég gæti hugsanlega framið. Þetta er að sjálfsögðu álitamál, en persónulega finnst mér liggja ljóst fyrir á hvaða rétti er brotið.

“Ekki er unnt að bera þessar lögmæltu samskiptareglur saman við ritskoðun í Kína, þar sem menn virða auk þess höfundarétt að engu.”
- Get alveg verið sammála þessu. Ég tók þetta bara sem dæmi því það sem ég er að mótmæla er ekki gjaldið heldur forsjárhyggjan, og fannst mér gott dæmi að benda á að forsjárhyggja á ekki heima á netinu frekar en í hinum *“ekta heimi”.

Enn og aftur þakka ég Birni fyrir að svara mér svona fljótt.´Ég hef ekki viljað taka þátt í skítkasti því það mun ekki hjálpa neitt. Hins vegar tel ég þetta vera ALranga leið til að ná fram stefgjöldum til listamanna.

* Ég segi ekta heimi því ég fann ekkert annað orð til að greini milli netheima og hinn “ekta heim”.