Fólk heldur alltaf áfram að koma mér á óvart.

Á aðfaranótt fimmtudags var bróðir minn á kaffihúsi, hann kom heim klukkan tvö. Að morgni föstudags, kl. 6,30 bankar lögreglan uppá í íbúðinni okkar og segist hafa fundið nýja fallega BMW-inn hans á bílaplani rétt ofan við heimili okkar.

Bróðir minn hefur annaðhvort misst bíllyklana á bílaplaninu eða einhver tekið þá af honum á kaffihúsinu. Finnandinn / sökudólgurinn gerði sér lítið um og ákvað að taka bílinn í stutta ökuferð.

Það endaði ekki betur en svo að viðkomandi klessti niður umferðarskilti og skildi bílinn eftir á bílaplani, galopinn.

Viðkomandi tók með sér bíllyklana, ekki veit ég til hvers, og flúði af hólmi.

Við sitjum uppi með tjónið, bæði tilfinningalegt og fjárhagslegt. Já og enga bíllykla. Bróðir minn var ný búinn að kaupa bílinn og fékk bara eitt lyklasett með bílnum.

Það væri því mjög gott ef þú þekkir einhvern sem hefur verið að monta sig af því að prufukeyra BMW að biðja viðkomandi að senda bíllyklana inn á næstu lögreglustöð. Það er að segja ef viðkomandi hefur ekki þann kjark í sér að játa sekt sína og gefa sig fram við lögreglu.

Það er nóg fyrir okkur að borga fyrir skemmdirnar sem aðrir hafa gert á eignum manns, í staðinn fyrir að vera líka að borga fyrir nýjan sviss og læsingar í bílinn.

Mér finnst það furðulegt að fólk skuli virkilega gera svona. Ég myndi aldrei geta sest upp í bíl sem ég hefði ekki hugmynd um hver ætti og bara ekið af stað út í bláinn. Hvað þá að klessa hann og stinga af eins og aumingji. Hvað fær fólk til þess að haga sér svona, þið getið ekki ímyndað ykkur hvað það er óþægileg tilfinning að vita af því að einhver hafi tekið eign manns um miðja nótt, misnotað hana, eyðilagt hana og farið svo heim að sofa.